Úttekt á endurgreiðslukerfi kvikmynda

Skýrsla til Alþingis

30.10.2019

Skýrslan var unnin að frumkvæði Ríkisendurskoðunar vegna ábendingar um hugsanlega misnotkun á endurgreiðslukerfi kvikmynda.

Á tímabilinu 2001–18 hefur um 9,1 ma.kr. verið greiddur úr ríkissjóði til framleiðenda á grundvelli endurgreiðslukerfisins. Á undanförnum árum hefur vægi sjónvarpsefnis aukist innan endurgreiðslukerfisins og tilvikum fjölgað þar sem álitamál er hvort efnið falli að markmiðum laga nr. 43/1999 og reglugerðar nr. 450/2017 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmynda. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að afmarka endurgreiðsluhæfi verkefna með skýrari hætti í lögum og lágmarka hættu á að huglæg sjónarmið skapi fordæmi fyrir endurgreiðslu til framtíðar.

Ríkisendurskoðun telur jafnframt að gera eigi kröfu um að kostnaðaruppgjör kvikmynda- og sjónvarpsverkefna séu endurskoðuð með hliðsjón af ákvæðum laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og tekjuskattslögum og að efla þurfi eftirlit með endurskoðun kostnaðarminni verkefna. Þá telur Ríkisendurskoðun að efla þurfi samstarf við embætti ríkisskattstjóra í tengslum við endurskoðun kostnaðarauppgjöra, meðal annars til að sannreyna að greiðsla skatta af ýmsum verktakagreiðslum og öðrum útgjaldaliðum framangreindra uppgjöra hafi átt sér stað.

Þann 11. júní 2019 voru á Alþingi samþykkt lög nr. 69/2019 um breytingu á lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga nr. 46/2016 þar sem kveðið er á um aðgang ríkisendurskoðanda að bókhaldi, þ.m.t. frumgögnum, hjá þeim aðilum sem fá framlög úr ríkissjóði. Rétt er að taka fram að úttekt þessari lauk áður en lögin tóku gildi og takmarkast endurskoðun kvikmyndaverkefna því við áðurgildandi heimildir Ríkisendurskoðunar.

Sjá nánar

Mynd með frétt