Engin heildarstefna í orkumálum

Skýrsla til Alþingis

23.02.2018

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki fimm ábendingar sem beint var til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Landsnets hf. árið 2015. Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar, Landsnet hf. Hlutverk, eignarhald og áætlanir.

Ráðuneytið hefur enn ekki brugðist við þeirri ábendingu Ríkisendurskoðunar að marka heildstæða stefnu í orkumálum til að tryggja að uppbygging og rekstur flutningskerfis raforku sé í samræmi við vilja stjórnvalda og taki mið af almannahag. Starfshópur um gerð langtímaorkustefnu var þó skipaður í desember 2017. Ríkisendurskoðun gagnrýnir þetta seinlæti en telur ekki rétt að ítreka ábendingu sína. Stofnunin mun á hinn bóginn fylgjast með framvindu þessa máls og taka það upp að nýju, gerist þess þörf.

Að mati Ríkisendurskoðunar hafa ráðuneytið og Landsnet brugðist með viðunandi hætti við hinum fjórum þessara ábendinga. Árið 2016 setti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sérstaka reglugerð um kerfisáætlun fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku. Eins hefur ráðuneytið tekið til skoðunar breytingu á eignarhaldi Landsnets og skipað starfshóp sem á að skýra betur ábyrgð aðila á raforkumarkaði. Þá hafa skilyrði Orkustofnunar til að sinna eftirliti sínu verið bætt. Að lokum hefur Landsnet gripið til aðgerða til að auka jafnræði við gerð kerfisáætlunar með auknu samráði við hagsmunaaðila.

Sjá nánar