Áfram fylgst með mannauðsmálum

Almennt

12.04.2017

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki sex ábendingar til fjármála- og efnahagsráðuneytis um mannauðsmál ríkisins sem birtust í tveim stjórnsýsluúttektum árið 2014.

Í öllum tilvikum var um að ræða ítrekanir á ábendingum frá árinu 2011 sem lutu m.a. að nauðsyn þess að móta og innleiða skýra og heildstæða stefnu í mannauðsmálum ríkisins, meta stöðu mannauðsmála reglulega, efla nútímalega mannauðsstjórnun hjá ríkinu og endurskoða lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Nokkuð hefur gengið að þoka þessum málum áfram en þó hefur enn ekki unnist tími til að innleiða þá stefnu í mannauðsmálum ríkisins sem legið hefur fyrir í drögum um nokkurt skeið.  Þá hefur ekki verið gengið frá endurskoðun laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur unnið að frá árinu 2014. Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að ítreka ekki að sinni þessar ábendingar en mun fylgjast með þróun mála og taka málið upp að nýju, telji stofnunin ástæðu til.

Unnin hefur verið verkáætlun til að veita forstöðumönnum aukna aðstoð í mannauðsmálum og efla fræðslu auk sem þess sem styrkja á Kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Ríkisendurskoðun telur að þróun mannauðsmála og mannauðsstjórnunar hjá ríkinu sé í ákveðnum farvegi og því sé ekki nauðsynlegt að ítreka þessar ábendingar.