Verklag Landsbankans við eignasölu gagnrýnt

Skýrsla til Alþingis

21.11.2016

Að mati Ríkisendurskoðunar hefði Landsbankinn þurft að setja sér skýrar reglur um sölu annarra eigna en fullnustueigna fyrr en árið 2015.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, Eignasala Landsbankans hf. 2010-2016. Þá hefði bankinn þurft að fylgja betur þeim meginkröfum að selja mikilvægar eignir í opnu og gagnsæju söluferli eða rökstyðja ella frávik frá þeim kröfum. Að mati stofnunarinnar hafa vinnubrögð bankans við eignasölur á undanförnum árum skaðað orðspor hans auk þess sem hann lét ekki alltaf á það reyna með full­nægjandi hætti hvort fá hefði mátt hærra verð fyrir eign­irnar.

Í þessu sambandi skal minnt á að í Eigandastefnu ríkisins (2009) eru fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins hvött til að koma sér upp innri verk­ferlum um lykilþætti í starfsemi sinni, svo sem sölu eigna. Eins er í áliti Samkeppniseftirlitisins frá 2008 og Sameiginlegum reglum Samtaka fjármálafyrirtækja um fjárhagslega endurskipulagningu frá 2010 lögð áhersla á að fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins viðhafi opið og gagnsætt söluferli og gæti jafnræðis með­al fjárfesta.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er sérstaklega fjallað um sölu Landsbankans á eignarhlutum sínum í Vestia hf. (2010), Icelandic Group hf. (2010), Promens hf. (2011), Framtakssjóði Íslands slhf. og IEI slhf. (2014), Borgun hf. (2014) og Valitor hf. (2014). Allar þessar sölur fóru fram í lokuðu ferli og í sumum tilvikum fékkst líklega lægra verð fyrir eignar­hlutina en vænta mátti mið­að við verð­mætin sem þeir geymdu.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir Landsbankann sérstaklega fyrir að hafa ekki aflað sér nægilegra upplýsinga um greiðslukortafyrirtækið Borgun, m.a. um aðild fyrirtækisins að Visa Europe Ltd. Erfitt er að meta þá fjár­hæð sem Lands­bankinn fór á mis við þar sem hagnaður Borg­unar (alls um 6,2 ma.kr.) varð að nokkru leyti til eftir sölu eignarhlutarins.

Landsbankinn telur sig ekki hafa vitað um aðild Borgunar að Visa Europe en í skýrslunni er bent á að aðild Borgunar að Visa Europe hafi verið for­senda þess að fyrirtækið hafi sinnt færslu­hirðingu vegna Visa­korta til margra ára. Þá gerði Borgun vorið 2014 tilboð í útgáfu Visakorta fyrir Landsbankann þar sem sérstaklega var tekið fram að fyrirtækið gæti boðið upp á það vöru­merki, sem krafðist aðildar að Visa Europe. Einnig er gagnrýnt að bankinn nýtti sér ekki aðgang að rafrænu gagnaherbergi haustið 2014 þar sem hugsanlega hefði fengist staðfesting á umræddri aðild Borgunar. Ríkisendurskoðun telur að slíkt hefði verið eðlilegur hluti af sölu­ferlinu og for­senda upp­lýstrar skoðunar á tilboðinu.

Þeirri ábendingu er beint til bankaráðs Landsbankans að grípa til ráðstafana til að endurreisa orðspor bankans. Stofnunin telur í því sambandi mikilvægt að bankaráð tryggi að Landsbankinn fylgi eigendastefnu ríkisins og öðrum reglum sem eiga að stuðla að góðum stjórnarháttum og heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum á fjármálamarkaði. Þá er bankaráð hvatt til að fylgja betur ákvæðum eigin starfsreglna, fjalla um og taka ákvarðanir um óvenju­legar eða mikilsháttar ráð­staf­anir, tryggja að gögn sem varða mikilvægar ákvarðanir séu skjöluð og tryggja skýr ábyrgðarskil milli bankans og dótturfélaga hans. Óæskilegt sé að bankastjóri sitji í stjórn dótturfélaga bankans.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti er hvatt til þess að taka reglur og eigendastefnur um eignasölur ríkisins og fyrirtækja í þess eigu til endurskoðunar með það fyrir augum að skerpa á þeim.

Sjá nánar