SÁÁ ber að bjóða út mötuneytisþjónustu

Skýrsla til Alþingis

11.03.2016

Ríkisendurskoðun hvetur SÁÁ til að bjóða út mötuneytisþjónustu á sjúkrahúsi og meðferðarheimili samtakanna.

Árið 2012 sömdu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) við fyrirtækið Bragðgott ehf. um að það sæi um mötuneytisþjónustu á Sjúkrahúsinu Vogi og meðferðarheimilinu Vík. Ári síðar benti Ríkisendurskoðun á það í skýrslu að ekki hefði verið rétt staðið að þessum samningi því samkvæmt lögum um opinber innkaup hefði átt að bjóða þjónustuna út. Stofnunin hvatti samtökin til að bæta úr þessu. Eins var velferðarráðuneytið hvatt til að ljúka eins fljótt og mögulegt væri vinnu við stefnumótun vel­ferðarþjónustu og ákveða hvaða þjónustu ríkið vildi kaupa af SÁÁ. Loks voru Sjúkratryggingar Íslands hvattar til að ganga sem fyrst frá samningum við samtökin um þá þjónustu sem ríkið kaupir af þeim.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stofnunin telur ekki þörf á að ítreka ábendingar sínar til ráðuneytisins og Sjúkratrygginga. Á hinn bóginn hafi mötuneytisþjónusta á Vogi og Vík ekki verið boðin út. Ríkisendurskoðun hvetur SÁÁ til að bjóða þjónustuna út. Að lágmarki beri samtökunum að auglýsa þjónustukaup sín vegna mötuneytisins opinberlega og gefa þannig öllum til þess bærum aðilum kost á að keppa um þjónustuna. Í þessu sambandi minnir Ríkisendur­skoðun á að SÁÁ falla undir lög um opinber inn­kaup þar sem samtökin eru fjármögnuð að lang­stærst­­um hluta af ríki og sveitar­félögum (um 77% árið 2014). Að mati stofnunarinnar er ótækt að þau fylgi ekki þeim lögum og regl­um sem um þau gilda.

Sjá nánar