Ráðuneytið ljúki stefnumótun um meðhöndlun úrgangs

Skýrsla til Alþingis

08.03.2016

Samkvæmt lögum ber stjórnvöldum að móta almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs fyrir landið allt. Slík stefna liggur þó ekki fyrir. Ríkisendurskoðun hvetur umverfis- og auðlindaráðuneytið til að ráða bót á þessu.

Heimilisúrgangur er margvíslegur úrgangur sem fellur til á heimilum og hjá fyrirtækjum, s.s. matarleyfar, pappír, pappi, plast, garðaúrgangur, gler, timbur og málmar. Undanfarin ár hefur slíkur úrgangur verið um fimmtungur alls úrgangs hér á landi. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stjórnvöld hafi lagt áherslu á að draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingu hans. Þessi viðleitni hafi borið nokkurn árangur, m.a. hafi endurvinnsla heimilisúrgangs aukist og dregið úr urðun lífbrjótanlegs úrgangs (úrgangs sem brotnar auðveldlega niður í náttúrunni). Þrátt fyrir þetta vanti enn nokkuð upp á að Ísland standist að öllu leyti samanburð við nágrannaríkin á þessu sviði. Urðun heimilisúrgangs sé t.d. meiri hér en annars staðar á Norðurlöndum. Á móti sé sorpbrennsla hér mun minni.

Fram kemur að samkvæmt lögum beri stjórnvöldum að móta almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs. Slík stefna liggi þó ekki fyrir. Ríkisendurskoðun hvetur umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að ljúka hið fyrsta gerð slíkrar stefnu sem gildi fyrir landið allt. Þar verði m.a. tímasett áætlun um aðgerðir og nauðsynleg fjárframlög ríkisins.

Ráðuneytið stuðli að aukinni flokkun heimilisúrgangs
Sveitarfélögin hafa umsjón með meðhöndlun úrgangs. Þau eiga hvert um sig eða fleiri sameiginlega (byggðasamlög/sorpsamlög) að semja svokallaðar svæðisáætlanir á þessu sviði til tólf ára. Fram kemur í skýrslunni að vísbendingar séu um að þessar áætlanir séu ekki það stjórntæki sem þeim er ætlað að vera. Þá skorti á að stjórnvöld fylgi því eftir að áætlanirnar séu gerðar og þeim fylgt. Ríkisendurskoðun hvetur umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að bæta úr þessu. Einnig þurfi ráðuneytið að stuðla að aukinni og samræmdri flokkun heimilisúrgangs á landsvísu.

Í skýrslunni er bent á að Umhverfisstofnun eigi lögum samkvæmt m.a. að upplýsa og fræða almenning um meðhöndlun heimilisúrgangs í samvinnu við sveitarfélögin. Stofnunin hafi þó ekki sinnt þessu verkefni sem skyldi þar sem hún fái enga fjármuni til þess. Ríkisendurskoðun hvetur umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að sjá til þess að Umhverfisstofnun geti sinnt þessu lögbundna verkefni sínu.

Sjá nánar