Stjórnvöld móti heildstæða stefnu í orkumálum

Skýrsla til Alþingis

30.09.2015

Ríkisendurskoðun telur að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið þurfi að móta heildstæða stefnu í orkumálum. Þannig verði stuðlað að því að ástand, uppbygging og rekstur flutningskerfis raforku séu jafnan í samræmi við vilja stjórnvalda og taki mið af almannahag. Þá telur stofnunin að stjórnvöld þurfi að veita Landsneti hf. virkt aðhald og tryggja nauðsynlegt eftirlit með starfsemi þess. Eins þurfi Landsnet að gæta jafnræðis við gerð kerfisáætlunar.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um hlutverk, eignarhald og áætlanir Landsnets hf. sem rekur flutningskerfi raforku hér á landi. Kerfið samanstendur af raflínum og mannvirkjum sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og dreifiveitna. Fyrirtækið er alfarið í eigu opinberra aðila og nemur óbeinn eignarhluti ríkisins 93%.

Samkvæmt raforkulögum skal Landsnet byggja upp og reka þjóðhagslega hagkvæmt og öruggt flutningskerfi sem tryggir áreiðanlega afhendingu orku til viðskiptavina. Í skýrslunni kemur fram að telja megi rekstur kerfisins hagkvæman en óvíst sé hvort öðrum markmiðum laganna hafi verið náð á viðunandi hátt. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að rekstur og ástand kerfisins séu jafnan í samræmi við öll markmið laganna. Stofnunin hvetur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til að móta heildstæða stefnu í orkumálum, þ. á m. raforkumálum. Slík stefna sé m.a. mikilvægur liður í að tryggja að ástand, uppbygging og rekstur flutningskerfisins séu í samræmi við vilja stjórnvalda og taki mið af almannahag.

Í raforkulögum segir að ráðherra skuli veita flutningsfyrirtæki raforku (Landsneti) rekstrarleyfi þar sem kveðið sé á um réttindi þess og skyldur. Hægt sé að endurskoða leyfið að tilteknum tíma liðnum hafi forsendur fyrir skilyrðum þess breyst verulega. Gert er ráð fyrir að um sérleyfisstarfsemi sé að ræða. Í skýrslunni kemur fram að aldrei hefur verið gefið út rekstrarleyfi til handa Landsneti. Að mati Ríkisendurskoðunar takmarkar þetta möguleika stjórnvalda til að veita fyrirtækinu aðhald. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að kanna til hlítar hvort þau ákvæði raforkulaga sem eiga að tryggja ráðherra vald til að veita Landsneti aðhald séu virk.

Landsnet telst dótturfélag Landsvirkjunar sf. og hlutdeildarfélag RARIK ohf. Auk þess eiga Orkuveita Reykjavíkur sf. og Orkubú Vestfjarða hluti í fyrirtækinu. Lög kveða á um að það skuli vera sjálfstætt gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu á raforku. Fram kemur í skýrslunni að komið hafi til álita að breyta eignarhaldi fyrirtækisins svo að það yrði í beinni eigu ríkis og/eða sveitarfélaga. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að sjálfstæði fyrirtækisins gagnvart öðrum aðilum á raforkumarkaði sé tryggt, jafnt í sýnd og reynd. Stofnunin hvetur ráðuneytið til að kanna hvort sérleyfis- og samkeppnisþættir raforkugeirans séu nægilega vel aðgreindir við núverandi aðstæður.

Þá hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að tryggja Orkustofnun skilyrði til að sinna nauðsynlegu eftirliti með Landsneti. Meðal annars þurfi að efla sjálfstæði raforkueftirlits stofnunarinnar.

Loks hvetur Ríkisendurskoðun Landsnet til að vanda vel til verka við undirbúning, gerð og framkvæmd áætlana um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Meðal annars þurfi að taka tillit til allra þeirra sem hafa hagsmuna að gæta við uppbyggingu kerfisins og gæta að jafnræði þeirra.

Sjá nánar