Ábendingar um dvalarheimili aldraðra ekki ítrekaðar

Skýrsla til Alþingis

07.09.2015

Árið 2012 hvatti Ríkisendurskoðun velferðarráðuneytið til að móta skýra stefnu um framtíð dvalarheimila aldraðra. Eins var hvatt til að fjárveitingar ríkisins til slíkra heimila miðuðust við þjónustuþörf íbúanna. Nýlega kannaði Ríkisendurskoðun hvernig stjórnvöld hafa brugðist við þessum ábendingum og er niðurstaðan sú að ekki sé þörf á að ítreka þær.Árið 2012 gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu um rekstur og starfsemi dvalarheimila aldraðra. Dvalarheimili eru stofnanir þar sem aldraðir hafa fasta búsetu og njóta tiltekinnar grunnþjónustu, þó ekki jafnmikillar hjúkrunar og á hjúkrunarheimilum. Starfsemi dvalarheimila er að stærstum hluta fjármögnuð með svokölluðum daggjöldum sem renna úr ríkissjóði. Ekki er þó notað sérstakt reiknilíkan til að ákveða þá fjárhæð sem hvert heimili fær hverju sinni. Sama daggjald er greitt fyrir öll dvalarrými óháð þjónustuþörf íbúanna.

Í skýrslunni kom fram að markmið stjórnvalda væri að aldraðir gætu búið sem lengst á eigin heimili með viðeigandi stuðningi. Ef aldraður einstaklingur gæti af heilsufarsástæðum ekki búið heima skyldi honum standa til boða pláss á hjúkrunarheimili. Á hinn bóginn væri stefnt að því að fækka rýmum á dvalarheimilum enda væri að hluta til litið á þau sem félagslegt úrræði. Fram kom að slíkum rýmum hefði fækkað um tæplega helming á tímabilinu 2006–2011. Ríkisendurskoðun hvatti velferðarráðuneytið til að móta stefnu um framtíð dvalarheimila og kortleggja og efla þjónustuna sem ætti að koma í stað þeirra.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu stofnunarinnar kemur fram að dvalarrýmum hefur enn fækkað frá árinu 2012. Ráðuneytið vinni að kortlagningu öldrunarþjónustunnar með það að markmiði að meta þörf fyrir slíka þjónustu og fjölga úrræðum. Að mati Ríkisendurskoðunar er stefna stjórnvalda í málefnum aldraðra skýr og telur stofnunin því ekki tilefni til að ítreka fyrrnefnda ábendingu (mótun stefnu um framtíð dvalarheimila o.s.frv).

Í skýrslunni frá 2012 benti Ríkisendurskoðun einnig á að ekki lægju fyrir reglur um umfang og gæði þeirrar þjónustu sem dvalarheimilin veita. Stofnunin taldi að ráðuneytið þyrfti að greina kostnað við rekstur dvalarrýma og miða daggjöld við þjónustuþörf íbúanna, líkt og daggjöld til hjúkrunarheimila. Þar gæti svonefnt RAI-mat nýst vel en með því er leitast við að meta hjúkrunar­þörf og heilsufar þeirra sem dvelja á hjúkrunarheimilum. Í eftirfylgniskýrslunni kemur fram að þetta hefur ekki gengið eftir. Ríkisendurskoðun telur þó ekki rétt að ítreka þessa ábendingu þar sem stjórnvöld vinna nú að því að kortleggja öldrunarþjónustuna. Að mati stofnunarinnar er engu að síður mikil­­­vægt að raunveruleg þjónustuþörf íbúa dvalarheimila og kostn­aðurinn vegna hennar liggi fyrir þegar að því kemur að málefni aldraðra flytjast frá ríki til sveitar­félaga svo að sátt náist um framlög ríkisins.

Sjá nánar