Hraða þarf endurskoðun laga um málefni útlendinga

Skýrsla til Alþingis

16.03.2015

Ríkisendurskoðun hvetur innanríkisráðuneytið til að ljúka sem fyrst heildarendurskoðun laga um málefni útlendinga. Kannað verði hvort rétt sé að færa málaflokkinn undir eitt ráðuneyti og einfalda stofnanakerfið. Jafnframt telur Ríkisendurskoðun að stjórnvöld þurfi að framfylgja betur en hingað til stefnu sinni og lagaákvæðum um málefni innflytjenda. Þá hvetur stofnunin velferðarráðuneytið til að beita sér fyrir aðgerðum til að auðvelda aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað með heildstæðum hætti um málefni útlendinga og innflytjenda hér á landi. Íslensk löggjöf gerir greinarmun á þessum hópum. Einstaklingar með erlent ríkisfang teljast útlendingar samkvæmt lögum. Hins vegar teljast útlendingar sem eiga lögheimili hér á landi innflytjendur. Sama gildir um fólk af erlendum uppruna sem fengið hefur íslenskan ríkisborgararétt. Börn innflytjenda teljast önnur kynslóð innflytjenda. Nærri lætur að innflytjendur séu nú um tíundi hluti íbúa landsins.

Innanríkisráðuneytið og stofnanir þess annast þau málefni útlendinga sem varða dvöl þeirra og búsetu hér á landi og jafnframt mál hælisleitenda. Velferðarráðuneytið og stofnanir þess annast á hinn bóginn málefni innflytjenda auk þess að sinna málefnum flóttamannahópa og atvinnumálum útlendinga. Að mati Ríkisendurskoðunar felast ýmsir annmarkar í þessari tvískiptingu. Meðal annars telur stofnunin að afgreiðsla dvalar- og atvinnuleyfa útlendinga sé flóknari og tímafrekari en hún þyrfti að vera. Við afgreiðslu slíkra leyfa þurfa stofnanir beggja ráðuneyta einatt að koma að málum (s.s. Útlendingastofnun, Þjóðskrá Íslands og Vinnumálastofnun). Af þessu hlýst kostnaður fyrir ríkið sem hægt væri að minnka með einföldun stjórnsýslunnar. Ríkisendurskoðun hvetur innanríkisráðuneytið til að ljúka sem fyrst heildarendurskoðun laga um málefni útlendinga. Kannað verði hvort rétt sé að færa málaflokkinn undir eitt ráðuneyti og einfalda stofnanakerfið.

Í skýrslunni kemur fram að umsóknum útlendinga um hæli hér á landi hefur fjölgað verulega undanfarin ár. Þetta hefur leitt til þess að afgreiðsla þeirra tekur að jafnaði lengri tíma nú en áður. Afgreiðslutími mála sem lokið var árið 2013 var að meðaltali tæpir 500 dagar. Þessi töf þykir ómannúðleg gagnvart hælisleitendum og hefur valdið ríkinu auknum kostnaði. Til að bregðast við var starfsmönnum innanríkisráðuneytisins og Útlendingastofnunar sem sinna hælisleitendum fjölgað. Einnig voru verkferlar bættir. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur þessi viðleitni borið nokkurn árangur. Stjórnvöld mörkuðu árið 2014 þá stefnu að afgreiðsla umsókna taki að meðaltali ekki lengri tíma en 90 daga á hvoru stjórnsýslustigi, þ.e. annars vegar hjá Útlendingastofnun og hins vegar hjá kærunefnd út­lendingamála ef úrskurður stofnunarinnar er kærður.

Fram kemur að stjórnvöld stefni að því að koma á fót sérstakri móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur. Ríkisendurskoðun telur að slík stöð tryggði betur en nú er gert réttindi og öryggi þeirra. Jafnframt stuðlaði hún að skilvirkari málsmeðferð. Stofnunin hvetur innanríkisráðuneytið til að koma slíkri stöð sem fyrst á fót. Um leið hvetur stofnunin ráðuneytið til að ljúka vinnu við reglugerð um lágmarksréttindi hælisleitenda sem bíða eftir endanlegri ákvörðun um umsóknir sínar, m.a. um rétt þeirra til heilbrigðisþjónustu.
Árið 2008 samþykkti Alþingi framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem byggð var á stefnumörkun stjórnvalda um málaflokkinn. Í skýrslunni er bent á að til hafi staðið að endurskoða þessa áætlun árið 2010 en það hafi ekki gengið eftir. Hún hafi heldur ekki verið endurskoðuð í samræmi við ákvæði laga um málefni innflytjenda sem sett voru 2012. Í árslok 2014 kynnti velferðarráðuneytið tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til ársins 2018. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að stjórnvöld fylgi stefnu sinni og lagaákvæðum um málefni innflytjenda betur eftir en til þessa.

Fram kemur að innan við þriðjungur sveitarfélaga hér á landi hefur mótað sér stefnu í málefnum innflytjenda. Að mati Ríkisendurskoðunar getur þetta skapað hættu á að sú félagsþjónusta sem innflytjendum stendur til boða sé mismunandi eftir búsetu. Til að tryggja fullkomið jafnræði telja sveitarfélögin sig þurfa aukinn fjárhags- og faglegan stuðning ríkisins. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að stuðla að auknu samræmi í þessu tilliti. Þá hvetur stofnunin ráðuneytið til að beita sér fyrir aðgerðum til að jafna aðstöðumun flóttamanna eftir því hvort þeir koma hingað í boði stjórnvalda eða á eigin vegum og stuðla að því að innflytjendur verði virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Loks hvetur stofnunin ráðuneytið til að ljúka sem fyrst samningu laga um bann við mismunun milli fólks, m.a. á grundvelli kynþáttar eða þjóðernis.

Samanlagðar fjárveitingar til málaflokka útlendinga og innflytjenda fyrir árið 2014 voru 1.174 m.kr. Þar af var 702 m.kr. veitt til málefna útlendinga. Þyngst vegur fjárlagaliður hælisleitenda (450 m.kr.) sem undanfarin ár hefur að stórum hluta verið ákveðinn í fjáraukalögum. Að auki fellur til ýmis kostnaður sem ekki er haldið sérstaklega utan um og erfitt er að áætla. Ríkisendurskoðun telur að vanda þurfi betur til rekstraráætlana fyrir málaflokkana og að fjárlagatillögur byggi á heildstæðu mati aðstæðna hverju sinni.

Sjá nánar