Niðurstöður fjárhagsendurskoðunar hjá ríkinu fyrir árið 2013

Endurskoðunarskýrsla

05.12.2014

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um framkvæmd og niðurstöður fjárhagsendurskoðunar hjá ríkinu fyrir árið 2013. Bent er á nokkur atriði sem betur mega fara í bókhaldi, reikningsskilum og fjármálastjórn ríkisins.Eitt meginverkefna Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum er að endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Um helmingur starfsmanna stofnunarinnar sinnir reglulegri fjárhagsendurskoðun hjá ríkinu en að auki annast endurskoðunarfyrirtæki afmörkuð verkefni á þessu sviði samkvæmt samningum við stofnunina. Gerð er grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum þessarar vinnu í árlegri skýrslu til Alþingis sem jafnframt er birt opinberlega.

Í skýrslunni Endurskoðun ríkisreiknings 2013 kemur fram að þar sem Ríkisendurskoðun sé fáliðuð hafi stofnunin ekki tök á að endurskoða alla liði fjárlaga á hverju ári. Stofnunin verði því að velja úr liði til endurskoðunar. Við val á liðum til endurskoðunar beiti stofnunin áhættugreiningu sem stuðli að því að allir mikilvægir liðir séu endurskoðaðir árlega. Hins vegar telji stofnunin nauðsynlegt að henni verði gert kleift að endurskoða alla fjárlagaliði með reglubundnari hætti en nú er.

Ríkisendurskoðandi áritaði ríkisreikning fyrir árið 2013 án fyrirvara en í árituninni var ábending um að færsla verðbóta og gengisbreytinga á lánum og skuldbindingum ríkissjóðs hafi ekki verið í samræmi við lög. Í skýrslunni er bent á nokkur önnur atriði sem Ríkisendurskoðun telur að betur mega fara í bókhaldi, reikningsskilum og fjármálastjórn ríkisins. Meðal helstu athugasemda og ábendinga stofnunarinnar eru eftirfarandi:

  • Uppgjör ríkisreiknings víkur í nokkrum veigamiklum atriðum frá almennum reikningsskilareglum, m.a. vegna undanþáguákvæðis í lögum um fjárreiður ríkisins. Ríkisendurskoðun telur að þessu eigi að breyta þannig að uppgjörið verði alfarið í samræmi við ákvæði laga um bókhald og ársreikninga.
  • Hækka þarf heildariðgjald til A-deildar úr 15,5% í 20,1% til að ná heildarstöðu hennar í jafnvægi. Að mati Ríkisendurskoðunar hafa rýmri vikmörk í bráðabirgðaákvæðum lífeyrissjóðslaga á undanförnum árum orðið til að fresta vanda A-deildar en ekki leysa hann.
  • Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins ber að gera sérstaka skrá um varanlega rekstrarfjármuni ríkisins (eignaskrá). Mikill misbrestur hefur verið á þessu og telur Ríkisendurskoðun það með öllu óviðunandi. Stofnunin hvetur ráðuneytin til að sjá til þess að úr þessu verði bætt.
  • Ríkisendurskoðun beinir því til Alþingis að kanna möguleika á að setja sérstaka löggjöf um skattstyrki þar sem kveðið væri á um markmið slíkra styrkja og að gildistími þeirra væri í öllum tilfellum takmarkaður.
  • Ríkisendurskoðun telur æskilegt að í skýringum með ríkisreikningi verði fjallað um stærstu fjárhagslega áhættuþætti sem ríkissjóður stendur frammi fyrir á hverjum tíma.
  • Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til þess að beita sér fyrir því að gerð verði úttekt á tölvukerfum ríkisins til að tryggja öryggi þeirra.

Ýmsar aðrar athugasemdir og ábendingar er að finna í skýrslunni sem er að vanda efnismikil.

Heildarútgjöld ríkissjóðs námu 592,2 milljörðum króna árið 2013 en tekjurnar 591,4 milljörðum króna. Tekjuhalli ríkissjóðs nam því 0,7 milljörðum króna en fjárlög og fjáraukalög gerðu ráð fyrir að tekjuhallinn yrði 19,7 milljarðar króna. Bókfærðar eignir námu 1.063,9 milljörðum króna í árslok og lækkuðu um 49,3 milljarða króna á milli ára. Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.933,0 milljörðum í árslok og lækkuðu um 19,2 milljarða króna milli ára. Hins vegar jukust lífeyrisskuldbindingar um 19,3 milljarða króna. Eigið fé í árslok var neikvætt um 869,2 milljarða króna samanborið við 839,2 milljarða króna neikvæða stöðu í árslok 2012.

Sjá nánar