Efla þarf kynningu á „Siðareglum fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands“ og fylgja þeim vel eftir

Skýrsla til Alþingis

05.12.2014

Ríkisendurskoðun hvetur forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti til að tryggja starfsfólki ráðuneyta reglubundna fræðslu um „Siðareglur fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands“. Þá hvetur stofnunin forsætisráðuneyti til að beita sér fyrir því að ráðuneytin fylgi samræmdri stefnu við að ná þeim markmiðum sem reglurnar kveða á um. Enn fremur er ráðuneytið hvatt til að skipa að nýju samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna í samræmi við ákvæði laga þar um. Sé ekki talin þörf fyrir þá nefnd beri að breyta lögum. Loks hvetur Ríkisendurskoðun fjármála- og efnahagsráðuneyti til að tryggja að starfsfólk Rekstrarfélags Stjórnarráðsins og verktakar sem starfa á vegum ráðuneytanna fái reglulega fræðslu um inntak siðareglnanna. Árið 2012 stað­festi fors­ætisráðherra „Siðareglur fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Ís­lands“ í samræmi við lög um Stjórnarráð Íslands. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um innleiðingu reglnanna og virkni þeirra í starfsemi ráðuneytanna. Könnun Ríkisendurskoðunar meðal starfsmanna Stjórnarráðsins leiddi í ljós að stór hluti þeirra telur sig ekki þekkja regl­urn­ar vel. Einnig kom fram að innan ráðuneytanna hefur lítil áhersla verið lögð á fræðslu um reglurnar og eftir­fylgni með þeim. Þó var nokkur munur milli ráðuneyta hvað þetta varðar.

Í skýrslunni kemur fram að ráðuneytin séu almennt jákvæð í garð siðareglnanna og telji þær góða og mikil­væga viðbót við lög og reglur. Þau hafi þó ekki formlegt eftirlit með því að starfsfólk fari eftir þeim. Þar sem engin viðurlög eru við brot­um á reglunum hafi ráðuneytin ein­göngu beitt ákvæð­um laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalaga) eftir því sem þau eiga við.

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að ráðuneytin beiti sér fyrir víð­tækri kynningu á siðareglunum og þjálfun í að fylgja þeim í dag­legum störfum. Stofnunin hvetur forsætisráðuneyti í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti til að tryggja starfsmönnum Stjórnarráðsins reglubundna fræðslu um reglurnar. Þá telur Ríkisendurskoðun að reglu­leg eftir­fylgni skipti sköpum eigi reglurnar að skila tilætluðum árangri. Stofnunin hvetur forsætisráðuneyti til að beita sér fyrir því að ráðuneytin fylgi samræmdri stefnu að þessu leyti. Bent er á að heppilegt gæti verið fyrir ráðuneytin að skipa innan sinna vé­banda sérstakar siða­nefnd­ir sem hefðu m.a. það hlut­verk að standa fyrir sið­ferði­legri umræðu á vinnustað.

Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands skal forsætisráðherra skipa til þriggja ára í senn sam­hæf­ing­ar­­­nefnd um sið­ferði­leg viðmið fyrir stjórn­sýsluna. Nefndin skal m.a. stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita stjórn­­völd­um ráðlegg­ing­ar um aðgerðir til að koma í veg fyrir hags­muna­­árekstra og spill­­ingu. Nefndin hefur ekki verið endurskipuð eftir að fyrsta starfstímabili hennar lauk í september 2013. Ríkisendurskoðun hvetur forsætisráðuneyti til að bæta úr þessu eða breyta lögum sé af einhverjum ástæðum ekki lengur talin þörf fyrir þessa nefnd.

Úttekt Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að innan Stjórnarráðsins starfar hópur fólks sem ekki er í beinu ráðningarsambandi við ráðuneytin heldur starfar á vegum Rekstr­ar­­­­­­­félags Stjórnarráðsins eða sem verktakar. Ríkis­endur­­skoðun telur mikilvægt að þetta fólk fái nauðsynlega kynningu og fræðslu um þær siðareglur sem gilda um störf þess. Stofnunin hvetur fjármála- og efnahagsráðuneyti til að tryggja að slík fræðsla og kynning fari fram a.m.k. árlega.

Umboðs­maður Alþingis hefur lögum samkvæmt eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveit­ar­­­félaga, m.a. hvort hún sé í samræmi við siðareglur sem settar eru á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands. Enn hefur engin kvörtun sem varðar „Siðareglur fyrir starfs­fólk Stjórnar­ráðs Ís­lands“ komið til kasta umboðsmanns. Þar sem reglurnar eru í eðli sínu almennar og engin viðurlög við brotum á þeim gæti slíkt eftirlit verið vand­kvæðum bundið. Í þessu sambandi ber raunar að gæta þess að einn helsti til­gangur siða­reglnanna er að efla um­ræðu um sið­ferði­lega hlið starfs­ins, síður að bregðast við brotum. Að því leyti eru þær frá­brugðnar lagaregl­um.

Þess ber að geta að úttekt Ríkisendurskoðunar var unnin í samræmi við 9. gr. laga um stofnunina sem kveður á um að hún geti kannað meðferð og nýtingu almannafjár. Slíkar úttektir geta m.a. tengst siða­reglum og beitingu þeirra enda ljóst að brot á þeim geta leitt til sóunar og ómark­vissrar nýtingar fjármuna ríkisins og dregið úr þeim rekstrarárangri sem að er stefnt. Á árum 2012–2014 tók Ríkisendurskoðun þátt í starfi aðgerðahóps á vegum Evrópusamtaka ríkisendurskoðana (EUROSAI) sem fjallaði um endurskoðun og siðferði (Task Force on Audit & Ethics). Á tímabilinu vann hópurinn fjórar skýrslur, m.a. skýrslu um vinnubrögð og aðferðafræði við endurskoðun siðferðilegra efna innan opinbera geirans, Audi­ting ethics in the public sector. A general overview of SAI´s practices.

Sjá nánar