Ákvæði um áminningarskyldu verði endurskoðuð

Skýrsla til Alþingis

04.12.2014

Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að beita sér fyrir því að ákvæði starfsmannalaga um áminningarskyldu verði endurskoðuð. Þá er ráðuneytið hvatt til að hafa samráð við stéttarfélög ríkisstarfsmanna um að kanna hvort binda megi tiltekin réttindi ríkisstarfsmanna í kjarasamninga í stað þess að mæla fyrir um þau í lögum. Enn fremur er ráðuneytið hvatt til þess að tryggja forstöðumönnum ríkisstofnana fullnægjandi aðstoð í mannauðsmálum.Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem sjónum var einkum beint að ákvæðum laga um starfslok ríkisstarfsmanna. Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalögum) njóta þeir verndar í starfi umfram launþega á almennum vinnumarkaði. Þessi vernd birtist m.a. í því að ef ríkisstarfsmaður brýtur af sér í starfi eða þykir ekki ná fullnægjandi árangri getur yfirmaður ekki sagt honum upp störfum nema að hafa áður veitt honum skriflega áminningu og gefið honum kost á að bæta ráð sitt. Ekki má segja starfsmanninum upp nema hann brjóti aftur af sér með sama eða svipuðum hætti. Geri hann það má þó ekki líða of langur tími milli brotanna því þá telst fyrra brotið fyrnt. Þá þarf að áminna að nýju og gefa starfsmanninum aftur kost á að bæta sig. Í skýrslunni kom fram að miðað við fjölda ríkisstarfsmanna væri áminningu mjög sjaldan beitt. Ríkisendurskoðun taldi að ástæðan væri m.a. sú að áminningarferlið væri þunglamalegt og tímafrekt. Fyrirkomulagið gæti komið niður á skilvirkni og árangri í ríkisrekstri.

Í skýrslu sinni árið 2011 beindi Ríkisendurskoðun fjórum ábendingum til fjármálaráðuneytisins (nú fjármála- og efnahagsráðuneyti). Ráðuneytið var hvatt til að:

  • Beita sér fyrir því að ákvæði starfsmannalaga um áminningu yrðu endurskoðuð og málsmeðferð við uppsagnir ríkisstarfsmanna einfölduð. Ríkisendurskoðun benti á að þótt áminningarskyldan félli brott myndu stjórnsýslulög m.a. tryggja að uppsagnir byggðu á málefnalegum sjónarmiðum. Að mati stofnunarinnar veittu stjórnsýslulögin ríkisstarfsmönnum fullnægjandi réttarvernd.
  • Beita sér fyrir því að forstöðumenn fengju lagaheimild til að gera, þegar svo bæri undir, starfslokasamninga við starfsmenn.
  • Hafa samráð við stéttarfélög ríkisstarfsmanna um að kanna hvort binda mætti tiltekin réttindi þeirra í kjarasamninga í stað þess að mæla fyrir um þau í lögum.
  • Tryggja forstöðumönnum fullnægjandi aðstoð í mannauðsmálum, einkum forstöðumönnum minnstu stofnana sem yfirleitt væru fremur ráðnir vegna fagþekkingar sinnar en kunnáttu í mannauðsmálum.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hefur ráðuneytið brugðist þannig við ábendingu um starfslokasamninga að stofnunin telur ekki þörf á að ítreka hana. Aftur á móti ítrekar Ríkisendurskoðun hinar þrjár.

Í skýrslu sinni árið 2011 hvatti Ríkisendurskoðun ráðuneyti og forstöðumenn ríkisstofnana til að meta frammistöðu starfsmanna reglulega og með formlegum hætti. Einnig lagði stofnunin til að starfsmannasamtal færi fram fyrir lok reynslutíma nýrra starfsmanna, áður en ákvörðun um fastráðningu væri tekin. Samkvæmt viðhorfskönnun sem Ríkisendurskoðun gerði nýlega meðal forstöðumanna sögðust 58% svarenda meta frammistöðu starfsmanna sinna með reglubundnum og formlegum hætti. Þá sögðust 62% eiga starfsmannasamtal við nýja starfsmenn fyrir lok reynslutíma þeirra.

Sjá nánar