Bæta þarf umsýslu og framkvæmd alþjóðlegra samninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum

Skýrsla til Alþingis

25.11.2014

Stjórnvöld þurfa að tryggja betur en nú að breytingar á alþjóðlegum samningum um verndun hafs gegn mengun frá skipum skili sér inn í íslenskan rétt. Þá þurfa stjórnvöld að vinna skipulega að því að staðfesta alþjóðlega samninga á þessu sviði sem ekki hafa verið staðfestir en hafa þýðingu fyrir íslenska hagsmuni. Enn fremur þurfa stjórnvöld að tryggja öflugt eftirlit með framkvæmd samninganna.Samkvæmt 9. gr. laga um Ríkisendurskoðun getur stofnunin kannað hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála. Þá getur hún kannað árangur af fjárframlögum ríkisins til þessa málaflokks.

Í nýrri skýrslu stofnunarinnar er fjallað um aðild Íslands að og framkvæmd á alþjóðlegum samningum um varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Íslensk stjórnvöld hafa staðfest (fullgilt) nokkra slíka samninga en með því að staðfesta alþjóðlegan samning lýsir ríki því yfir að það sé bundið af ákvæðum hans. Einn mikilvægasti samningurinn á þessu sviði er svokallaður MARPOL-samningur (e. The International Conven­tion for the Pre­ven­tion of Pollution from Ships). Sex viðaukar hafa verið gerðir við þennan samning sem lúta að ólíkum þáttum mengunarvarna. Þar af hafa íslensk stjórnvöld staðfest fjóra. Þá á Ísland aðild að sjö öðrum al­þjóða­­­­­samn­­ing­um um þessi mál.

Fram kemur í skýrslunni að á alþjóðavettvangi sé stöðugt unnið að endur­skoðun og þróun á samningum um varnir gegn mengun hafsins af völdum skipa. Íslensk stjórnvöld hafi lítinn þátt tekið í þessari vinnu. Þá hafi breytingar á þeim samningum sem Ísland hefur staðfest aðeins að litlu leyti skilað sér inn í ís­lensk­an rétt. Ríkisendurskoðun hvetur umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að tryggja að ný og endurskoðuð ákvæði samninganna verði innleidd í íslenskan rétt á markvissan hátt og þeim framfylgt. Þá telur Ríkisendurskoðun að skýra þurfi  hlutverka- og ábyrgðarskiptingu á þessu sviði milli ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og annarra aðila sem tengjast málaflokknum.
Fram kemur að umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinni að smíði reglugerðar til að tryggja innleiðingu á staðfestum viðaukum MARPOL-samningsins í íslenskan rétt. Ríkis­endur­skoðun hvetur ráðuneytið til að flýta þessari vinnu. Þá kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi ekki stað­­­fest viðauka IV og VI við MARPOL-samninginn. Sá fyrri fjallar um varnir gegn skólp­mengun frá skipum og hinn síðari um loftmengun frá þeim. Ísland hafi heldur ekki staðfest fimm aðra samn­ing­a sem varða varnir gegn mengun hafsins né þrjár bókanir við samninga sem það á aðild að. Ríkisendurskoðun hvetur umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að vinna skipulega að því að staðfesta samninga á þessu sviði sem þýðingu geta haft fyrir hagsmuni Íslands.

Ýmis ákvæði alþjóðlegra samninga á sviði umhverfismála hafa verið innleidd í íslenskan rétt með gildistöku löggjafar Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi. Dæmi eru um að ákvæði samninga um mengunarvarnir á hafinu sem Ísland hefur ekki staðfest hafi verið innleidd hér með þessum hætti. Ríkis­endur­skoð­un telur mikil­­vægt að um­hverfis- og auðlindaráðuneytið láti greina að hve miklu leyti ákvæði slíkra samninga eru uppfyllt og meti mögulegan kostnað þess og ávinning að staðfesta þá formlega.

Loks hvetur Ríkisendurskoðun Umhverfisstofnun til að tryggja öflugt eftirlit með framkvæmd alþjóðlegra samninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum.

Sjá nánar