Tekin verði skýr afstaða til ábendinga Ríkisendurskoðunar í nýjum lögum um LÍN

Skýrsla til Alþingis

26.09.2014

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingar sínar frá árinu 2011 um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ástæðan er m.a. sú að unnið er að endurskoðun laga um sjóðinn. Stofnunin væntir þess að Alþingi taki í nýjum lögum skýra afstöðu til þeirra atriða sem ábendingarnar lúta að.Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) þar sem sjónum var einkum beint að reglum og ákvörðunum sjóðsins um lánshæfi náms. Fram kom að sjóðurinn skal lögum samkvæmt aðeins veita lán til náms á háskólastigi en þó sé honum heimilt að veita lán vegna tiltekins sérnáms. Eins sé hefð fyrir því að lána til ýmiss konar náms á framhaldsskólastigi sem ekki telst til sérnáms, m.a. svonefnds frumgreinanáms sem veitir undirbúning fyrir háskólanám. Ríkisendurskoðun taldi slíkar lánveitingar fara í bága við lög um lánasjóðinn og jafnræðissjónarmið.

Fram kom að lánþegum sjóðsins hefði fjölgað um 85% á árunum 2001‒09. Þar af hefði lánþegum á framhaldsskólastigi fjölgað um 164%. Þá hefðu skólagjaldalán fimmfaldast á sama tímabili. Þótt lánasjóðurinn væri lánastofnun bæri ríkissjóður um helming kostnaðar vegna heildarútlána hans og hefði árlegt framlag hans til sjóðsins meira en þrefaldast frá 2001‒10. Meginástæðan væri sú að fjármögnunarkostnaður sjóðsins væri mun meiri en útlánavextir. Þá hefðu afskriftir aukist verulega á árunum 2006‒10 vegna aukinna undanþága lánþega frá endurgreiðslu. Ríkisendurskoðun taldi mikilvægt að stjórnvöld huguðu að markvissri nýtingu ríkisfjár með skýrri stefnu um lánshæfi náms. Þar mætti hafa til hliðsjónar fyrirkomulag annars staðar á Norðurlöndum.

Í skýrslunni hvatti Ríkisendurskoðun mennta- og menningarmálaráðuneytið til að:

  • Tryggja að ákvæðum laga um lánshæfi náms væri fylgt eða lögum breytt í samræmi við framkvæmdina
  • Skipa faglega nefnd til að meta lánshæfi náms
  • Setja reglur um lánshæf skólagjöld, m.a. til að tryggja að þau séu ekki hærri en raunkostnaður kennslu

Lánasjóðurinn var hvattur til að:

  • Fylgja ákvæðum laga um lánshæfi náms
  • Tryggja jafnræði framhaldsskólanema til námslána
  • Binda rétt til námslána við ákveðinn aldur og fjárhæð
  • Endurskoða reglur um skólagjaldalán vegna náms erlendis
  • Upplýsa lánþega reglulega um fjárhagsskuldbindingar sínar við sjóðinn

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að innan ráðuneytisins er nú unnið að endurskoðun laga um LÍN og stefnt sé að því að lagafrumvarp verði lagt fram eigi síðar en vorið 2015. Ráðuneytið telji eðlilegt að ábendingar Ríkisendurskoðunar frá 2011 verði þar teknar til athugunar. Í ljósi þessa sem og annarra viðbragða ráðuneytisins og lánasjóðsins telur Ríkisendurskoðun ekki þörf á að ítreka ábendingarnar að svo stöddu. Stofnunin væntir þess að Alþingi taki í nýjum lögum um LÍN skýra afstöðu til þeirra atriða sem þær lúta að.

Sjá nánar