Forsætisráðuneytið setji sér skýrar verklagsreglur um styrkveitingar

Skýrsla til Alþingis

25.06.2014

Ríkisendurskoðun gagnrýnir hvernig forsætisráðuneytið stóð að úthlutun styrkja til atvinnuskapandi minjaverndarverkefna í árslok 2013. Einnig gagnrýnir stofnunin hvernig staðið var að úthlutun styrkja til atvinnuuppbyggingar og fjölgunar vistvænna starfa á árunum 2012 og 2013. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að setja sér skýrar verklagsreglur um styrkveitingar. Þá sé mikilvægt að ráðuneytið setji beiðnir sínar til Alþingis um fjárveitingar (fjárlagabeiðnir) ávallt fram á skýran og lýsandi hátt. Enn fremur sé mikilvægt að skýra hvar ábyrgð á verkefnum „græna hagkerfisins“ liggi en það er óljóst að mati Ríkisendurskoðunar.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um úthlutanir forsætisráðuneytisins á styrkjum til ýmissa verkefna á sviði atvinnuuppbyggingar, minjaverndar og tengdra málefna. Meðal annars kemur fram að í desember 2013 úthlutaði ráðuneytið samtals 205 milljónum króna til 24 verkefna. Féð var sótt til tveggja fjárlagaliða, svonefndra safnliða. Í skýrslunni er vakin athygli á því að flest þessara verkefna gátu sótt um styrki úr lögbundnum sjóðum en samkvæmt tilkynningu Alþingis frá árinu 2011 skal ekki úthluta styrkjum af safnliðum til verkefna sem falla undir slíka sjóði.

Fram kemur að umræddir styrkir voru ekki auglýstir opinberlega heldur voru styrkþegar valdir af forsætisráðherra að fengnum umsögnum frá stofnunum ráðuneytisins. Ríkisendurskoðun gagnrýnir þetta og bendir á að opinber auglýsing styrkja eykur líkur á að jafnræði og gagnsæi sé tryggt við úthlutun þeirra. Að mati stofnunarinnar er mikilvægt að öllum aðilum sem uppfylla sett viðmið um styrkveitingar sé gefinn kostur á að sækja um. Ríkisendurskoðun beinir því til ráðuneytisins að setja sér skýrar verklagsreglur um styrkveitingar í samræmi við almennar reglur stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti.

Forsætisráðuneytið fól Minjastofnun Íslands að annast samningagerð við styrkþega, greiða út styrkina og fylgja verkefnunum eftir. Að mati Ríkisendurskoðunar fylgdi Minjastofnun vönduðu verklagi í þessu efni.

Fram á mitt ár 2013 úthlutaði sérstök ráðherranefnd um atvinnumál styrkjum af öðrum þeirra tveggja safnliða sem hér um ræðir (Atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa). Nefndin lagðist af við ríkisstjórnarskipti en að mati Ríkisendurskoðunar stóð vilji Alþingis til þess að fjárveitingum af liðnum yrði ráðstafað fyrir tilstuðlan ráðherranefndar um atvinnumál. Stofnunin telur að ráðuneytið hefði því átt að leita formlegrar heimildar Alþingis til að úthluta styrkjum af þessum lið eftir að nefndin lagðist af.

Umrædd ráðherranefnd úthlutaði á árunum 2012 og 2013 samtals 211 milljónum króna af fyrrnefndum safnlið til 16 verkefna. Í skýrslunni kemur fram að nefndin hafi sett sér reglur um úthlutun styrkja sem hafi þó ekki farið fram að undangengu formlegu umsóknarferli heldur hafi verið óskað eftir tillögum að verkefnum frá fagráðuneytum. Ríkisendurskoðun gagnrýnir þetta og bendir á að auglýsa hefði átt styrkina til að tryggja sem best jafnræði og gagnsæi. Þá gerir stofnunin athugasemd við að ekki hafi verið gerðir skriflegir samningar við alla styrkþega. Samkvæmt gögnum sem Ríkisendurskoðun hefur aflað voru gerðir formlegir samningar vegna 13 af þeim 16 verkefnum sem ráðherranefndin styrkti.

Árið 2012 samþykkti Alþingi þingsályktun um eflingu „græna hagkerfisins“ hér á landi. Sérstakur liður var í fjárlögum ársins 2013 vegna verkefna græna hagkerfisins en fjárveitingin var síðar flutt til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og liðurinn felldur niður í fjáraukalögum ársins. Hins vegar var í þessum sömu fjáraukalögum nýr liður sem vísaði bæði til græna hagkerfisins og verkefna á forræði forstætisráðuneytisins: Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Fjárveitingu þessa nýja liðar var dreift til Þjóðminjasafns Íslands, Minjastofnunar Íslands og aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins. Hluti framangreindra styrkja sem ráðuneytið úthlutaði í desember 2013 komu af þessum lið.

Ríkisendurskoðun gerir í skýrslunni athugasemd við að ráðuneytið skyldi óska eftir aukafjárveitingu vegna græna hagkerfisins á þennan nýja fjárlagalið á sama tíma og það lagði til að fjárheimildir á eldri lið undir þessu heiti yrðu felldar niður. Engu var ráðstafað af nýja liðnum til verkefna sem tilgreind eru í þingsályktuninni frá 2012 um eflingu græna hagkerfisins. Að mati Ríkisendurskoðunar var tenging nýja liðarins við græna hagkerfið því óljós og gagnrýnir stofnunin framsetningu liðarins, þ.e. að vísað sé í græna hagkerfið í heiti hans, og telur hana villandi. Ríkisendurskoðun áréttar mikilvægi þess að forsætisráðuneytið setji fjárlagaliði sína ávallt fram á skýran og lýsandi hátt til að þingmenn og aðrir eigi auðvelt með að átta sig á tilgangi þeirra. Enn fremur bendir Ríkisendurskoðun á að ábyrgðarskipting vegna opinberra verkefna verði að vera skýr. Forsætisráðuneytið þurfi að skýra hvar ábyrgð á græna hagkerfinu liggi.

Sjá núnar