Skýra þarf verksvið Framkvæmdasýslu ríkisins og bæta verkferla

Skýrsla til Alþingis

20.06.2014

Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld þurfi að skilgreina verksvið Framkvæmdasýslu ríkisins í lögum betur en nú er gert. Æskilegt sé að þetta verði gert í tengslum við endurskipulagningu fasteignamála ríkisins. Þá þurfi stofnunin að taka ýmsa verkferla fastari tökum en gert hefur verið. Framkvæmdasýsla ríkisins sinnir tilteknum þáttum verklegra opinberra framkvæmda og veitir ráðuneytum og stofnunum auk þess ráðgjöf í því sambandi. Samkvæmt lögum skiptast opinberar framkvæmdir í fjóra áfanga: frumathugun, áætlunargerð, verklega framkvæmd og gerð skilamats. Ráðuneyti, stofnun eða annar eignaraðili skal sinna frumathugun, þ.e. könnun og samanburði þeirra framkvæmdakosta sem til greina koma, og áætlunargerð sem felur í sér hönnun, kostnaðaráætlun og undirbúning framkvæmdar. Framkvæmdasýslan skal á hinn bóginn annast yfirstjórn framkvæmdar og vinna skilamat að henni lokinni. Þar skal gera grein fyrir framgangi verkefnis og meta árangur þess. Framkvæmdasýslan annast einnig gerð húsaleigusamninga ráðuneyta og stofnana í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að á síðari árum hafi ráðuneytin í æ ríkari mæli falið Framkvæmdasýslu ríkisins að hafa umsjón með frumathugun og áætlunargerð vegna verklegra framkvæmda. Þar með hafi stofnunin iðulega séð um allt ferli framkvæmdanna. Ríkisendurskoðun telur þetta geta bætt heildarsýn og samræmi en bendir þó á að slíkt fyrirkomulag þurfi að eiga sér stoð í lögum. Þá telur Ríkisendurskoðun óeðlilegt að Framkvæmdasýslan hafi bæði umsjón með sumum þáttum verkefna, veiti ráðgjöf vegna annarra þátta og hafi eftirlit með og meti faglegan árangur enn annarra þátta eða verkefna í heild. Slíkt skapi hættu á hagsmunaárekstrum, auk þess sem utanað-komandi aðhald og eftirlit skorti þegar Framkvæmdasýslan vinnur sjálf frumathuganir.

Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að skilgreina verksvið Framkvæmdasýslu ríkisins betur í lögum en nú er gert og tryggja að stofnunin sinni ekki bæði framkvæmd verkefna og stjórnsýslu þeirra. Æskilegt er að þetta sé gert í tengslum við endurskipulagningu fasteignamála ríkisins og nýja löggjöf um málaflokkinn. Þar þarf m.a. að taka afstöðu til þess hvort sameina eigi Framkvæmdasýslu ríkisins og Fasteignir ríkissjóðs sem annast umsjón, eftirlit og rekstur fasteigna ríkisins. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið einnig til að beita sér fyrir því að Framkvæmdasýslan bjóði sem mest út einstaka verkþætti opinberra framkvæmda. Slíkt stuðli að því að fjármunir og þekking nýtist sem best. Enn fremur sé mikilvægt að ávallt fari fram frumathugun vegna verkefna en dæmi eru um að henni sé sleppt þrátt fyrir skýr ákvæði laga og reglugerðar.

Í skýrslu sinni bendir Ríkisendurskoðun einnig á nokkur atriði sem Framkvæmdasýsla ríkisins þurfi að huga að með tilliti til úrbóta. Stofnunin telur rétt að Framkvæmdasýslan geri jafnan samninga við verkkaupa um þá þjónustu og ráðgjöf sem hún veitir en slíkir samningar hafa ekki verið gerðir vegna öflunar leiguhúsnæðis. Þá þurfi gjaldskrá stofnunarinnar að vera aðgengileg á vef hennar og svo gagnsæ að ljóst sé hvernig þóknun hennar er reiknuð. Einnig þurfi stofnunin að fylgja þeim tímamörkum sem reglur um skilamat kveða á um en dæmi eru um að skilamat hafi enn ekki verið unnið nokkrum árum eftir verklok. Loks þurfi stofnunin að skilgreina í verklagsreglu hvað teljast meiriháttar framkvæmdir og hvað minniháttar. Samkvæmt núgildandi verklagi skal vinna skilamat um fyrrnefndu framkvæmdirnar en skilagrein vegna hinna síðarnefndu.

Sjá nánar