Ferli úttektar á Þjóðleikhúsinu lokið

Skýrsla til Alþingis

31.03.2014

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingar sínar um starfsemi Þjóðleikhússins sem fram komu í stjórnýsluúttekt árið 2008 og ítrekaðar voru árið 2011. Þar með er ferli þessarar úttektar á Þjóðleikhúsinu formlega lokið. Árið 2008 gerði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á starfsemi Þjóðleikhússins. Kannað var hvernig það hefði sinnt lögbundnum hlutverkum sínum og nýtt þá opinberu fjármuni sem það hafði til ráðstöfunar. Einnig var leitast við að greina meginástæður þáverandi rekstrarvanda leikhússins og hvaða leiðir væru til úrbóta. Í skýrslu sinni benti Ríkisendurskoðun Þjóðleikhúsinu og menntamálaráðuneyti (nú mennta- og menningarmálaráðuneyti) á alls sautján atriði sem hún taldi að athuga þyrfti með tilliti til úrbóta.

Ríkisendurskoðun fylgir hverri stjórnsýsluúttekt eftir með sjálfstæðri athugun á því hvernig brugðist hafi verið við ábendingum hennar. Slík eftirfylgni fer alla jafna fram u.þ.b. þremur árum frá útkomu skýrslu. Í samræmi við þetta kannaði Ríkisendurskoðun árið 2011 hvernig hefði verið brugðist við ábendingum hennar frá árinu 2008. Alls höfðu þá ellefu þeirra komið til framkvæmda en sex voru ítrekaðar. Þremur þeirra var beint til mennta- og menningarmálaráðuneytis, þar af einni í breyttri mynd. Lagt var til að starfsemi þjóðleikhúsráðs yrði felld í fastari skorður, að lögbundin verkefni Þjóðleikhússins yrðu endurmetin vegna fyrirhugaðs flutnings Íslensku óperunnar í tónlistarhúsið Hörpu og að mótuð yrði framtíðarstefna um húsnæðismál Þjóðleikhússins. Eins var þremur ábendingum beint til Þjóðleikhússins. Það var hvatt til að endurskoða reglur um frímiða, gera áætlun um endurnýjun tæknibúnaðar leikhússins og kanna leiðir til að bæta nýtingu húsnæðis.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um ítrekaða eftirfylgni kemur fram að lítið hafi þokast í þeim málum sem snúa að mennta- og menningarmálaráðuneyti síðan árið 2011. Að hluta til stafar það af því að frumvarp til sviðslistalaga, sem tvívegis hefur verið lagt fram á Alþingi, hefur enn ekki náð fram að ganga. Þar er m.a. lagt til að óperuflutningur verði ekki lengur meðal verkefna leikhússins og að þjóðleikhúsráð verði þjóðleikhússtjóra til ráðgjafar í stað þess að vera stjórnarnefnd eins og í núgildandi leiklistarlögum. Þar sem ráðgert er að leggja endurskoðað frumvarp fram að nýju haustið 2014 telur Ríkisendurskoðun ekki þörf á að ítreka ábendingar sínar sem lúta að þessum atriðum. Stofnunin bendir þó á hvort ekki sé rétt að gera þjóðleikhúsráð að hreinræktuðu listrænu fagráði ef það á einungis að vera þjóðleikhússtjóra til ráðgjafar. Með tilliti til þess að húsnæðismál Þjóðleikhússins hafa verið tekin fastari tökum undanfarin ár en áður telur Ríkisendurskoðun ekki þörf á að ítreka ábendingu sína um að mótuð verði framtíðarstefna um húsnæðismál Þjóðleikhússins. Ríkisendurskoðun telur engu að síður að slík stefna gæti komið að góðu gagni við að forgangsraða endurbótum og uppbyggingu á húsnæði leikhússins eftir því sem fjármunir leyfa.

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur Þjóðleikhúsið brugðist við öllum þeim ábendingum sem til þess var beint með þeim hætti að ekki er þörf á að ítreka þær. Reglur um frímiða hafa verið endurskoðaðar og hlutfall slíkra miða af heildarmiðafjölda hefur lækkað umtalsvert. Þá hefur verið gerð áætlun um endurnýjunarþörf tæknideilda og leiðir kannaðar til að bæta nýtingu húsnæðis yfir sumartímann.

Með tilliti til alls þessa lítur Ríkisendurskoðun svo á að ferli stjórnsýsluúttektar á Þjóðleikhúsinu, sem hófst árið 2008, sé formlega lokið.

Sjá nánar