Ekki ástæða til að ítreka ábendingar vegna Rannsóknasjóðs

Skýrsla til Alþingis

18.03.2014

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingar sínar til Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís) um það verklag sem viðhaft er við úthlutun styrkja úr Rannsóknasjóði.Í skýrslunni Úthlutun styrkja úr Rannsóknasjóði (2011) gerði Ríkisendurskoðun grein fyrir niðurstöðum könnunar sinnar á því verklagi sem þá var fylgt við meðferð umsókna, faglegt mat þeirra og styrkveitingar úr Rannsóknasjóði. Um er að ræða opinn samkeppnissjóð á vegum ríkisins sem styrkir vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám hér á landi. Rannís hefur daglega umsjón með sjóðnum en sérstök fagráð veita stjórn sjóðsins ráðgjöf við styrkúthlutanir.

Í skýrslu sinni vakti Ríkisendurskoðun m.a. athygli á því að smæð íslensks vísindasamfélags og sú staðreynd að fagráðsmenn geta sjálfir sótt um styrk úr Rannsóknasjóði gætu skapað hættu á hagsmunaárekstrum við úthlutun styrkja. Því lagði Ríkisendurskoðun til að fagráðin yrðu að hluta til skipuð erlendum sérfræðingum.  Þá lagði stofnunin til að metinn yrði ávinningur þess að stofnað yrði eitt fagráð fyrir allar vísinda- og fræðigreinar í stað fjögurra ráða. Loks lagði stofnunin til að settar yrðu reglur um endurgreiðslu styrkja ef verkefnum lyki ekki með formlegum hætti.

Í byrjun þessa árs kannaði Ríkisendurskoðun hvernig brugðist hefði verið við framangreindum ábendingum. Hvert fagráð Rannsóknasjóðs er nú skipað að minnsta kosti tveimur erlendum sérfræðingum auk þess sem leitað er álits tveggja ytri sérfræðinga áður en fagráð tekur styrkumsókn til umfjöllunar. Þá hefur Rannís metið mögulegan ávinning þess að stofna eitt fagráð sem tæki yfir hlutverk ráðanna fjögurra en talið slíka breytingu óheppilega. Fagráðum var þess í stað fjölgað um eitt. Rannsóknasjóður hefur ekki heldur talið rétt að setja reglur um að styrkir skuli endurgreiddir ef verkefnum lýkur án þess að lokaskýrslu sé skilað, enda hafi styrkþegar í flestum tilvikum lagt umtalsverða vinnu í verkefni sín.

Ríkisendurskoðun sér ekki ástæðu til að ítreka neina ábendingu sína frá árinu 2011. Með tilliti til þeirra fjármuna sem hugsanlega tapast þegar verkefnum lýkur ekki á tilskilinn hátt hvetur stofnunin Rannís engu að síður til að meta gildi þess að auka aðhald sitt með styrkþegum. Þetta mætti t.d. gera með því að setja þá reglu að þeir einir eigi kost á að sækja að nýju um styrk úr Rannsóknasjóði sem lokið hafa að fullu fyrri verkefnum sínum.

Sjá nánar