Keilir þarf að treysta starfsemi sína

Skýrsla til Alþingis

17.12.2013

Ríkisendurskoðun ítrekar hluta ábendinga sinna frá árinu 2010 um rekstur Keilis ehf., nýtingu ríkisframlaga til skólahalds félagsins og eftirlit stjórnvalda með starfseminni. Að mati stofnunarinnar þarf Keilir að treysta rekstrargrundvöll sinn enn betur svo að hann standi undir fjárskuldbindingum komandi ára. Eins þarf skólinn að tryggja að ríkisframlög renni til umsaminna verkefna og efla innra gæðastarf sitt. Ríkisendurskoðun hvetur Háskóla Íslands einnig til að stuðla að því að frumgreinakennsla Keilis uppfylli faglegar kröfur og yfirvöld menntamála til að efla eftirlit sitt með skólanum.Árið 2010 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um ríkisframlög til Keilis ehf., nýtingu þeirra og árangur. Keilir var stofnaður árið 2007 sem sambræðingur einkarekins framhaldsskóla, háskólaseturs, símenntunarstofnunar og nýsköpunarmiðstöðvar. Eigendur félagsins eru m.a. Háskóli Íslands, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, sveitarfélög og orkufyrirtæki. Framlög ríkisins til uppbyggingar og kennslu Keilis námu samtals tæplega 686 milljónum króna á tímabilinu 2007‒2010. Í skýrslu sinni árið 2010 beindi Ríkisendurskoðun þremur ábendingum til skólans. Í fyrsta lagi var honum bent á að honum bæri sjálfum að tryggja eigið rekstraröryggi, í öðru lagi var hann minntur á að fjárveitingar ríkisins ættu að renna til umsaminna verkefna og í þriðja lagi var hann hvattur til að efla gæðastarf sitt.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að síðustu þrjú árin hafi bæði fjárhagslegir og faglegir þættir í starfsemi Keilis færst til betri vegar. Engu að síður telur stofnunin rétt að ítreka allar þrjár ábendingar sínar frá árinu 2010. Árleg framlög ríkisins til Keilis námu að jafnaði 223-236 milljónum króna á tímabilinu 2011‒2013 og virðist hann njóta jafnræðis við aðra skóla sem veita sambærilega þjónustu. Skólinn hefur engu að síður verið rekinn með halla síðustu tvö ár. Þá eru skuldir hans miklar og stórar afborganir framundan, m.a. þarf skólinn að greiða 257 milljóna króna skuld við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar í ársbyrjun 2018. Því telur Ríkisendurskoðun brýnt að skólinn tryggi betur en nú rekstrargrundvöll sinn. Jafnframt þurfi að gæta að því að framlög ríkisins séu nýtt eins og samningar kveða á um en skólinn og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa ekki að öllu leyti verið samstiga í skilningi sínum á því hvernig framlögum skuli skipt milli námsgreina. Enn fremur leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að Keilir efli frekar innra gæðastarf sitt, m.a. svo að nemendur frumgreinadeildar standi undir þeim kröfum sem háskólar gera til nemenda sinna.

Háskóli Íslands á stóran hlut í Keili og ber faglega ábyrgð á frumgreinakennslu skólans og kennslu hans á háskólastigi. Í skýrslu sinni frá árinu 2010 beindi Ríkisendurskoðun þremur ábendingum til Háskólans og telur að brugðist hafi verið við tveimur þeirra með fullnægjandi hætti en ítrekar þá þriðju. Stofnunin hvetur Háskólann til að tryggja að frumgreinakennsla Keilis uppfylli faglegar gæðakröfur og að grípa til viðeigandi ráðstafana ef þörf krefur. Þá var þremur ábendingum beint til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og ítrekar Ríkisendurskoðun nú eina þeirra. Ráðuneytið er hvatt til að efla eftirlit sitt og aðhald með Keili og öðrum einkaskólum. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að vel sé fylgst með því að fjárveitingar ríkisins renni óskiptar til þeirra verkefna sem um er samið og að nemendafjöldi skóla sé í samræmi við þau framlög.

Sjá nánar