Ábendingar vegna Vinnueftirlitsins ítrekaðar öðru sinni

Skýrsla til Alþingis

03.12.2013

Ríkisendurskoðun ítrekar í annað sinn þrjár ábendingar sínar frá árinu 2007 til velferðarráðuneytisins vegna Vinnueftirlits ríkisins. Gera þarf nýjan árangursstjórnunarsamning við Vinnueftirlitið og kanna mögulegan ávinning þess að flytja tiltekin verkefni frá því til Samgöngustofu.[Uppfært 4.12.2013]
Árið 2007 beindi Ríkisendurskoðun fjórum ábendingum til félagsmálaráðuneytisins (nú velferðarráðuneyti) er vörðuðu stjórnskipulag og verkefni Vinnueftirlits ríkisins, samskipti ráðuneytisins við stofnunina og eftirlit þess með starfsemi hennar. Þá beindi Ríkisendurskoðun átta ábendingum til Vinnueftirlitsins um ýmsar úrbætur í starfsemi stofnunarinnar. Þremur árum síðar eða árið 2010 kannaði Ríkisendurskoðun hvernig brugðist hefði verið við þessum ábendingum. Kom þá í ljós að Vinnueftirlitið hafði brugðist við öllum þeim ábendingum sem beint var til þess með þeim hætti að ekki var talin þörf á að ítreka þær. Hins vegar hafði engin þeirra ábendinga sem beint var til ráðneytisins komið til framkvæmda. Voru þær því ítrekaðar í eftirfylgniskýrslu.

Nú sex árum eftir að ábendingarnar voru fyrst settar fram hefur aðeins ein þeirra komið til framkvæmda. Í nýrri eftirfylgniskýrslu ítrekar Ríkisendurskoðun hinar þrjár en með örlítið breyttri áherslu miðað við upphaflega framsetningu. Þá hafa tvær þeirra verið sameinaðar í eina. Stofnunin hvetur ráðuneytið til að gera nýjan árangursstjórnunarsamning við stofnunina sem taki mið af núverandi starfsemi stofnunarinnar. Þá er ráðuneytið hvatt til að kanna með með formlegum hætti mögulegan ávinning þess að flytja tiltekin verkefni frá Vinnueftirlitinu til Samgöngustofu. Hér er átt við umsjón með skráningu vinnuvéla og eftirlit með þeim, auk umsýslu með starfsréttindum vegna slíkra véla.

Sjá nánar