Matvælastofnun vinni áfram að umbótum í starfsemi sinni

Skýrsla til Alþingis

13.11.2013

Ríkisendurskoðun hvetur Matvælastofnun til að vinna áfram að umbótum í starfsemi sinni, ljúka við að koma á skýru verklagi við eftirlit, stjórnsýslu og þjónustu og starfa betur í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti en hún gerir nú. Þá hvetur Ríkisendurskoðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til að beita sér fyrir að sett verði rammalög um Matvælastofnun og kanna mögulegan ávinning þess að færa allt matvælaeftirlit í landinu á eina hendi.Matvælastofnun heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og sinnir margvíslegri stjórnsýslu og eftirliti á sviði matvælaframleiðslu ásamt þjónustu við framleiðendur og neytendur. Starfssvið hennar nær allt frá frumframleiðslu til fullvinnslu matvæla. Eftirlitsskyldir aðilar eru samtals á bilinu 4.000 til 4.500 á landinu öllu, þar af um 2.500 lögbýli. Þá er stofnuninni samkvæmt lögum ætlað að samhæfa matvælaeftirlit sem sveitarfélögin sinna en hún hefur þó ekki boðvald yfir þeim á því sviði.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Matvælastofnun starfi í samræmi við 20 lög og meira en 300 reglugerðir. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að beita sér fyrir því að sett verði rammalög um stofnunina þar sem m.a. verði kveðið skýrt á um hlutverk hennar, stjórnun og verkefni. Þá telur Ríkisendurskoðun að ráðuneytið þurfi að meta hvort ná megi fram faglegum og fjárhagslegum ávinningi með því að sameina allt matvælaeftirlit í landinu. Enn fremur hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að styðja vel við starfsemi Matvælastofnunar og tryggja að ábyrgðarskipting milli þess og stofnunarinnar sé skýr og öllum ljós.

Fram kemur að Matvælastofnun vinni sífellt að umbótum á verklagi sínu og starfsemi, m.a. gerð skoðunarhandbóka og gátlista fyrir eftirlit. Einnig hafi hún tekið upp kerfi til að meta áhættu tengda starfsemi eftirlitsskyldra aðila og frammistöðu þeirra. Ríkisendurskoðun hvetur Matvælastofnun til að ljúka sem fyrst við að koma á skýru verklagi.

Hagsmunasamtök eftirlitsskyldra aðila hafa gagnrýnt Matvælastofnun fyrir vinnubrögð hennar við stjórnsýslu og eftirlit. Einnig fyrir samskiptahætti og upplýsingagjöf til eftirlitsskyldra aðila. Þá hefur stofnunin sætt ámæli fyrir að túlka reglur of þröngt og taka ekki nægilegt tillit til aðstæðna lítilla rekstraraðila. Á hinn bóginn hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hvatt Matvælastofnun til að efla eftirlit sitt, gera meiri kröfur til rekstaraðila og beita þvingunarúrræðum í ríkara mæli en hingað til. Að mati Ríkisendurskoðunar getur verið vandasamt fyrir stofnunina að fara bil beggja.

Ríkisendurskoðun hvetur Matvælastofnun til að tryggja að skýrum reglum sé fylgt við upplýsingamiðlun og samskipti við eftirlitsskylda aðila. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf stofnunin einnig að starfa betur í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti en hún gerir nú og afgreiða erindi ávallt í samræmi við stjórnsýslulög. Þá þarf hún að kynna betur fyrir eftirlitsskyldum aðilum að henni er ekki heimilt að veita þeim ráðgjöf og þjónustu samhliða eftirliti sínu. Það er til að tryggja óhæði eftirlitsaðila. Loks hvetur Ríkisendurskoðun stofnunina til að gæta meðalhófs í lagatúlkun og eftirliti án þess þó að það komi niður á öryggi og gæðum matvæla og fóðurs eða aðbúnaði dýra.

Sjá nánar