Ekki ráðist í úttekt á Vatnajökulsþjóðgarði að sinni

Skýrsla til Alþingis

20.08.2013

Ríkisendurskoðun hefur lokið forkönnun vegna hugsanlegrar úttektar á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Niðurstaðan er sú að ekki verði ráðist í úttekt að sinni. Í nýrri skýrslu gerir Ríkisendurskoðun grein fyrir niðurstöðu forkönnunar sem hafði að markmiði að meta hvort efni stæðu til þess að gera formlega úttekt á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Niðurstaðan er sú að þar sem málefni þjóðgarða séu í deiglu um þessar mundir verði ekki ráðist í úttekt að sinni. Í skýrslunni er engu að síður lagt mat á nokkra þætti rekstrar og stjórnskipulags Vatnajökulsþjóðgarðs. Einnig er þar fjallað um hugmyndir sem uppi hafa verið um sameiningu stofnana sem annast þjóðgarða og friðlýst svæði hér á landi.

Meðal annars kemur fram að stjórnskipulag Vatnajökulsþjóðgarðs sé flókið og ógagnsætt en starfshópi á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafi verið falið að endurskoða það. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að í þeirri vinnu verði lögð áhersla á að skýra verkaskiptingu, valdmörk og ábyrgð við stjórnun þjóðgarðsins. Þá  telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að kannaðir verði kostir og gallar þess að sameina stofnanir sem annast þjóðgarða og friðlýst svæði.

Í skýrslunni er fjallað um fjárhagsstöðu Vatnajökulsþjóðgarðs en stofnunin var með um 54 milljóna króna uppsafnaðan halla í lok síðasta árs. Fram kemur að stefnt sé að því að greiða niður hallann að fullu á næsta ári en til að það geti gengið eftir þurfi fjárveiting að haldast sambærileg milli ára. Ríkisendurskoðun hvetur umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að hafa þessa stöðu í huga við fjárlagagerð vegna ársins 2014.

Sjá nánar