Mikilvægt að nýta reiknilíkan heilbrigðisstofnana betur

Skýrsla til Alþingis

19.08.2013

Velferðarráðuneytið þarf að tryggja betur en gert hefur verið að útreikningar reiknilíkans sem notað er til að áætla fjárþörf heilbrigðisstofnana byggi ávallt á réttum upplýsingum. Einnig þarf að huga að forsendum líkansins og gera það aðgengilegra og gagnsærra.
Heilbrigðisyfirvöld hafa um nokkurra ára skeið notað sérstakt reiknilíkan til að meta fjárþörf heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Tillögur til Alþingis um fjárveitingar til þessara stofnana hafa m.a. byggst á útreikningum þessa líkans. Fjárþörfin er metin með hliðsjón af eðli og samsetningu þjónustunnar á hverjum stað, íbúafjölda, dreifingu byggðar og þjónustuþörf. Markmiðið er að stuðla að auknum jöfnuði stofnananna og tryggja þeim fjárhagslegan grunn til að standa undir þeirri þjónustu sem þær skulu veita.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að velferðarráðuneytið ætlast til þess að heilbrigðisstofnanir lagi starfsemi sína að líkaninu. Ráðuneytið hafi þó ekki gætt þess að uppfæra árlega sumar þær upplýsingar sem útreikningar líkansins byggjast á, s.s. um aðstæður á hverjum stað eða almennna verðlagsþróun. Þetta dragi úr gildi líkansins. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að úr þessum annmarka verði bætt. Til að slíkt sé unnt þurfi að þó efla og samræma skráningu stofnana á fjárhagsupplýsingum í bókhaldskerfi ríkisins og starfsemisupplýsingum í sjúkraskrárkerfi stofnananna. Einnig sé mikilvægt að tengja líkanið betur við stefnu og markmið stjórnvalda í heilbrigðismálum.

Fram kemur að margir forstöðumenn heilbrigðisstofnana telja sig ekki hafa nægilega góðan aðgang að líkaninu né þekkja nógu vel forsendur þess og hvernig það er notað við fjárlagagerð. Ríkisendurskoðun mælist til þess að velferðarráðuneytið geri líkanið aðgengilegra og gagnsærra en það er nú, kynni það betur fyrir forstöðumönnum og nýti það betur sem stjórn- og samskiptatæki. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að í ljósi þess hve fjárhagsstaða margra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni er erfið sé mikilvægt að farið verði yfir forsendur líkansins, m.a. breytur og reiknireglur, og kannað hversu raunhæfar þær eru sem viðmið við tillögugerð um fjárveitingar.

Sjá nánar