Hafa brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingum um varnir gegn fíkniefnasmygli

Skýrsla til Alþingis

11.06.2013

Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld hafi brugðist með fullnægjandi hætti við fjórum ábendingum um leiðir til að sporna við fíkniefnasmygli. Ábendingarnar voru upphaflega settar fram í skýrslu sem birt var árið 2007 en ítrekaðar árið 2010.Árið 2007 beindi Ríkisendurskoðun tólf ábendingum til stjórnvalda um leiðir til að sporna við smygli á ólöglegum fíkniefnum hingað til lands. Þremur árum síðar, árið 2010, kannaði stofnunin að hvaða marki þessum ábendingum hefði verið fylgt. Niðurstaðan var sú að átta ábendingar hefðu komið til framkvæmda en fjórar ekki og voru þær ítrekaðar í skýrslu. Þær beindust að mismunandi ráðuneytum og stofnunum og lutu að ólíkum þáttum þessara mála:

  • Forsætisráðuneyti var hvatt til að hafa forgöngu að heildrænni stefnumörkun í fíkniefnamálum sem næði jafnt til aðgerða til að hefta eftirspurn og framboð efnanna.
  • Efnahags- og viðskiptaráðuneyti (nú fjármála- og efnahagsráðuneyti) var hvatt til að kanna til hlítar hvort koma mætti á fót sérstökum gagnagrunni fyrir gjaldeyriskaup og fjármagnsfærslur milli landa og heimila lögreglu, skatt- og tollyfirvöldum aðgang að honum.
  • Utanríkisráðuneyti var hvatt til að kanna til hlítar hvort tilteknar breytingar á reglum um tilkynningarskyldu skipa samræmdust skyldum Íslands samkvæmt Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna.
  • Loks voru tollyfirvöld hvött til að setja sér árleg starfsmarkmið um „hittni“ fíkniefnaeftirlits til að meta hversu markvisst og skilvirkt það væri.

Nú þremur árum eftir umrædda ítrekun hefur Ríkisendurskoðun kannað viðbrögð stjórnvalda við henni. Í nýrri eftirfylgniskýrslu stofnunarinnar kemur fram að brugðist hefur verið við ábendingunum með þeim hætti að ekki er talin þörf á að ítreka þær öðru sinni. Aðkomu stofnunarinnar að umræddu máli sé þar með lokið.

Sjá nánar