Gera þarf þjónustusamninga við öll öldrunarheimili

Skýrsla til Alþingis

30.05.2013

Stjórnvöld hafa aðeins gert formlega þjónustusamninga við 11% öldrunarheimila sem fá fjárframlög úr ríkissjóði. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að bæta úr þessu.Hér á landi starfa samtals 73 öldrunarheimili, þ.m.t. hjúkrunarheimili, sem rekin eru af einkaaðilum, sjálfseignarstofnunum og sveitarfélögum. Ríkið greiðir framlög til þessara heimila í formi svokallaðra daggjalda. Í nýrri ábendingu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stjórnvöld hafa einungis gert formlega þjónustusamninga við 8 af þessum 73 öldrunarheimilum. Þjónustusamningar eru samningar sem ráðuneyti og stofnanir gera við aðila utan ríkisins um að þeir taki að sér að veita tiltekna þjónustu, t.d. á sviði mennta- eða velferðarmála, gegn greiðslum úr ríkissjóði. Í samningunum er kveðið á um skyldur aðila og rammi settur um samskipti, upplýsingagjöf og eftirlit.

Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að gera þjónustusamninga við öll öldrunarheimili til að öðlast betri yfirsýn og bæta stjórnun sína á málaflokknum. Þá hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að efla eftirlit sitt með rekstri og þjónustu heimilanna.

Sjá nánar