Frestar mati á framfylgd ábendingar um tvö ár

Skýrsla til Alþingis

10.05.2013

Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að fresta um tvö ár mati á framfylgd ábendingar sinnar frá árinu 2010 um innkaupamál skrifstofu Alþingis.Haustið 2010 benti Ríkisendurskoðun skrifstofu Alþingis á að taka verklag sitt við útboð og verðfyrirspurnir til endurskoðunar. Tilefnið var kaup skrifstofunnar á tækniþjónustu vegna þings Norðurlandaráðs sem haldið var hér á landi fyrr á því ári. Þjónustan hafði verið keypt án útboðs en Ríkisendurskoðun taldi að bjóða hefði átt kaupin út enda hefði fjárhæð verið yfir viðmiðunarmörkum útboðsskyldu samkvæmt lögum um opinber innkaup. Þessu var skrifstofa Alþingis ósammála og vísaði til þess að Norðurlandaráð hefði greitt meirihluta kostnaðarins. Ríkisendurskoðun benti á móti á að bæði íslenska ríkið og Norðurlandaráð yrðu að hlíta reglum Evrópska efnahagssvæðisins um opinber innkaup.

Að jafnaði fylgir Ríkisendurskoðun ábendingum sínum eftir þegar þrjú ár eru liðin frá birtingu þeirra. Þá er metið hvort eða að hvaða marki hafi verið brugðist við þeim. Í nýjum einblöðungi Ríkisendurskoðunar kemur fram að skrifstofa Alþingis leggi nú áherslu á að fara að reglum og leiðbeiningum um opinber innkaup. En þar sem ekki hafi reynt nægilega vel á verklag skrifstofunnar við útboð og verðfyrirspurnir telji Ríkisendurskoðun rétt að fresta mati á framfylgd ábendingar sinnar frá árinu 2010. Matið muni fara fram að loknu þingi Norðurlandaráðs hér á landi árið 2015.

Sjá nánar