Hefur brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Skýrsla til Alþingis

06.05.2013

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingum Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010 um framkvæmd búvörusamninga.Árið 2010 beindi Ríkisendurskoðun þremur ábendingum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti) sem lutu að framkvæmd svonefndra búvörusamninga. Það eru samningar sem ríkið hefur gert við hagsmunasamtök bænda og fela í sér fjárhagslegan stuðning við sauðfjárbændur, kúabændur og garðyrkjubændur. Í fyrsta lagi var ráðuneytið hvatt til að sinna betur eftirliti með framkvæmd samninganna og greiðslum vegna þeirra. Í öðru lagi var ráðuneytið hvatt til að auka gagnsæi útreikninga að baki greiðslum svo að þingmenn, eftirlitsaðilar og almenningur ættu auðveldara með að glöggva sig á samsetningu þeirra. Loks benti Ríkisendurskoðun á nauðsyn þess að ráðuneytið gerði formlega samninga um þóknanir úr ríkissjóði til Bændasamtaka Íslands fyrir umsýslu með samningunum.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hafi ráðuneytið brugðist með fullnægjandi hætti við fyrrnefndum ábendingum. Aðkomu stofnunarinnar að framkvæmd búvörusamninga á þeim tímabilum sem úttektin náði til sé þar með lokið.

Sjá nánar