Niðurstöður fjárhagsendurskoðunar hjá ríkinu fyrir árið 2011

Skýrsla til Alþingis

22.11.2012

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um framkvæmd og niðurstöður fjárhagsendurskoðunar hjá ríkinu fyrir árið 2011. Bent er á nokkur atriði sem betur mega fara í bókhaldi, reikningsskilum og fjármálastjórn ríkisins.Eitt meginverkefni Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum er að endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Regluleg fjárhagsendurskoðun er viðamesta verkefni stofnunarinnar en tæplega helmingur starfsmanna sinnir því, 20 af samtals 42. Auk þess annast endurskoðunarfyrirtæki vinnu á þessu sviði samkvæmt samningum við Ríkisendurskoðun. Stofnunin gerir grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum fjárhagsendurskoðunar í árlegri skýrslu til Alþingis sem jafnframt er birt opinberlega.

Ábending í árituninni
Í skýrslunni Endurskoðun ríkisreiknings 2011 kemur fram að með áritun sinni á reikninginn hafi ríkisendurskoðandi staðfest að hann gæfi glögga mynd af afkomu ríkissjóðs, stofnana, fyrirtækja og sjóða í A- til E-hluta ríkissjóðs. Þá staðfesti ríkisendurskoðandi að reikningurinn gæfi glögga mynd af efnahag í árslok og breytingu á handbæru fé á árinu í samræmi við lög um ársreikninga og fjárreiður ríkisins. Áritunin var án fyrirvara en í henni var ábending um skuldbindingar ríkissjóðs sem getið er í skýringu og séryfirliti með reikningnum en eru ekki færðar í efnahag. Hér er m.a. um að ræða ríkisábyrgðir, skuldbindingar vegna innstæðna í fjármálafyrirtækjum, vegna Icesave-málsins svokallaða og A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).

Náði til 80% heildarútgjalda
Heildarútgjöld ríkissjóðs námu 575,9 milljörðum króna á síðasta ári og var rekstur ráðuneyta og stofnana í heild innan fjárheimilda. Gjöld ríkissjóðs voru þó 32,2 milljörðum króna umfram fjárheimildir. Að stærstum hluta skýrist það annars vegar af kostnaði  ríkisins vegna sölu á SpKef sparisjóði til Landsbankans (19,2 milljarðar) og hins vegar niðurfærslu á eignarhlutum ríkisins i Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins (12 milljarðar).

Almennt gildir að endurskoðun þarf að vera nægilega umfangsmikil til að endurskoðandinn geti sannreynt hvort reikningar gefi glögga mynd af rekstri og efnahag. Ríkisendurskoðun er fáliðuð og hefur ekki tök á að endurskoða alla fjárlagaliði á hverju ári en þeir eru samtals 424 í A-hluta. Stofnunin verður því árlega að velja úr liði til endurskoðunar. Valið byggist m.a. á mati á ætluðu mikilvægi þeirra fyrir niðurstöðu reikningsskilanna í heild en í því sambandi hafa útgjaldafrekustu liðirnir eðlilega mesta þýðingu. Endurskoðun ríkisreiknings 2011 náði til samtals 171 fjárlagaliðar í A-hluta og námu útgjöld þeirra tæplega 80% af heildarútgjöldum ríkisins á árinu. Þá voru öll reikningsskil aðila í B–E-hluta ríkisreiknings endurskoðuð. Enn fremur var mikil áhersla lögð á endurskoðun efnahags- og tekjuliða ríkisreiknings.

Nokkur atriði sem betur mega fara
Í skýrslunni bendir Ríkisendurskoðun á nokkur atriði sem betur mega fara í bókhaldi, reikningsskilum og fjármálastjórn ríkisins. Meðal annars er bent á að reikningsskilareglur sem ríkisreikningur byggir á víki í veigamiklum atriðum frá almennt viðurkenndum reikningsskilareglum. Að mati Ríkisendurskoðunar eru sum þessara frávika ónauðsynleg og óæskileg. Þá bendir stofnunin á að bregðast þurfi við tryggingafræðilegri stöðu A-deildar LSR með hækkun iðgjalda launagreiðenda en áfallnar skuldbindingar eru nú rúmum 10 milljörðum króna umfram eignir. Enn fremur telur Ríkisendurskoðun að gera þurfi betri grein fyrir áhrifum lagabreytinga á tekjur ríkissjóðs í skýringum með ríkisreikningi en nú er gert.
Fjölmargar aðrar athugasemdir og ábendingar er að finna í skýrslunni sem er mjög efnismikil, samtals 102 blaðsíður. Gerð er grein fyrir helstu athugasemdum og ábendingum í niðurstöðukafla skýrslunnar á bls. 5–8.

Sjá nánar