Afkoma ríkissjóðs um mitt ár betri en ráð var fyrir gert

Skýrsla til Alþingis

08.11.2012

Afkoma ríkissjóðs á miðju ári 2012 var nokkru betri en reiknað var með í fjárlögum. Hins vegar eru horfur á að afkoman á árinu öllu verði um 2 milljörðum króna lakari en fjárlög gerðu ráð fyrir. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að gripið verði til aðgerða til að koma í veg fyrir að erfið rekstrarstaða nokkurra stofnana verði enn erfiðari. Þá telur stofnunin að taka þurfi afstöðu til þess hvernig fara eigi með uppsafnaðan halla sem nokkrar stofnanir glíma við.Frétt uppfærð 9.11.2012

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um framkvæmd fjárlaga á fyrstu 6 mánuðum ársins og frumvarp til fjáraukalaga sem nú er til afgreiðslu á Alþingi. Fram kemur að tekjur ríkissjóðs á tímabilinu voru 10,1% umfram áætlun en gjöldin 2,3% undir fjárheimild tímabilsins.
Þá kemur fram að frumvarp til fjáraukalaga geri ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 10,6 milljörðum króna meiri á árinu öllu en áætlað var í fjárlögum. Skýringin sé m.a. jákvæðari þróuna efnahagsmála en gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga. Hins vegar sé í frumvarpinu gert ráð fyrir að gjöld ríkissjóðs verði 12,5 milljörðum króna meiri en heimilað var í fjárlögum og að afkoma ársins verði um 2 milljörðum króna lakari en þar var reiknað með. Aukin gjöld skýrist einkum af meiri kostnaði vegna atvinnuleysisbóta, lífeyrisgreiðslna og fleiri liða auk þess sem vaxtagjöld hafi verið meiri en áætlað var í fjárlögum.

Í skýrslunni lýsir Ríkisendurskoðun áhyggjum af stöðu stofnana og fjárlagaliða sem eiga erfitt með að láta enda ná saman í rekstri. Stofnunin telur hættu á að rekstrarvandi nokkurra liða muni aukast verði ekki þegar brugðist við honum. Um er að ræða rannsóknarnefndir Alþingis, Sinfóníuhljómsveit Íslands, aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Umboðsmann skuldara, hjúkrunarheimilð Sólvang og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að bregðast við vanda þessara liða og koma í veg fyrir að hann aukist.

Nokkrir fjárlagaliðir sem á undanförnum árum hafa ítrekað farið fram úr fjárlögum hafa náð að bæta rekstur sinn en glíma við uppsafnaðan halla frá fyrri árum. Ríkisendurskoðun vill að tekin verði afstaða til þess hvernig fara eigi með slíkan uppsafnaðan halla hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Landspítalanum, Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, Heilbrigðisstofnun Austurlands og á lið vegna Flugvalla og flugleiðsöguþjónustu.

Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að bregðast við miklum afskriftum lána hjá Íbúðalánasjóði. Að mati stofnunarinnar virðist ljóst að leggja þarf sjóðnum til aukið stofnfé. Þá telur Ríkisendurskoðun að bæta þurfi áætlanagerð vegna nokkurra fjárlagaliða þar sem árleg fjárveiting byggist á væntingum um fjölda þeirra sem rétt eiga á greiðslum úr ríkissjóði. Um er að ræða liði vegna málskostnaðar í opinberum málum, opinberrar réttaraðstoðar, bóta til brotaþola og lífeyrisskuldbindinga.

Loks þarf að mati Ríkisendurskoðunar að huga að fjárveitingum til nokkurra liða þar sem rekstrarafgangur hefur safnast upp. Þetta eru Sérstakur saksóknari, safnliður vegna heilbrigðisstofnana, Fjármálaeftirlitið, Mannvirkjastofnun og Ofanflóðasjóður.

Sjá nánar