Skýrsla um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir eftir hrun

Skýrsla til Alþingis

27.06.2012

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Hér er m.a. um að ræða framlög, ábyrgðir og lánveitingar til banka og sparisjóða og fleiri aðila. Skýrslan var unnin að beiðni forsætisnefndar Alþingis.Tekið er fram í skýrslunni að framlög, ábyrgðir, lánveitingar og aðrar skuldbindingar ríkisins vegna fjármálafyrirtækja og stofnana séu mjög ólík að eðli og því sé ekki unnt að birta samtölur um þau. Hætta sé á að slík samlagning gæfi villandi mynd af stöðunni.
Fram kemur að ríkið lagði nýju bönkunum (sem nú heita Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn) samtals til 138,2 milljarða króna hlutafé. Að auki veitti ríkið þeim víkjandi lán upp á samtals 57,3 milljarða króna.

Bent er á að við fall bankanna árið 2008 hafi Seðlabanki Íslands orðið fyrir verulegu tjóni vegna tapaðra lána hans til banka og annarra fjármálafyrirtækja fyrir hrun. Samtals nemi tap Seðlabankans og ríkissjóðs vegna þessa 267,2 milljörðum króna. Á móti standi kröfur í þrotabú banka og fjármálafyrirtækja auk ýmissa annarra krafna. Að mati Ríkisendurskoðunar er of snemmt að fjalla um árangur af umsýslu þessara krafna eða hve mikið af þeim mun að lokum endurheimtast.

Árið 2009 fól Fjármálaeftirlitið (FME) Arion banka að taka yfir innlánsskuldbindingar SPRON sem þá var kominn í þrot. Í skýrslunni kemur fram að ríkið sé bakábyrgt vegna þessara skuldbindinga sem samtals nema 96,7 milljörðum króna. Sama ár fól FME Íslandsbanka að taka yfir innlánsskuldbindingar Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. þegar sá síðarnefndi féll. Ríkið var upphaflega bakábyrgt vegna þessa en sú ábyrgð er ekki lengur fyrir hendi.

Árið 2010 stofnaði ríkið hlutafélagið Byr til að kaupa eignir Byrs sparisjóðs, sem þá var fallinn, og taka við hluta af skuldum hans. Þegar Byr hf. var seldur til Íslandsbanka tapaði ríkið 135 milljónum króna. Sama ár stofnaði ríkið sparisjóðinn SpKef sem keypti eignir Sparisjóðsins í Keflavík og tók yfir hluta af skuldum hans samkvæmt ákvörðun FME. Eftir að í ljós kom að virði eignanna var minna en upphaflega var áætlað samdi ríkið, að tilhlutan FME, við nýja Landsbankann um yfirtöku þeirra og skuldanna. Skyldi ríkið greiða bankanum mismuninn þarna á milli. Fram kemur í skýrslunni að samkvæmt nýlegu eignamati nemi heildarkostnaður ríkisins vegna Sparisjóðsins í Keflavík um 25 milljörðum króna. Ríkið lagði einnig stofnfé í fimm minni sparisjóði á árinu 2010 og nam verðmæti eignarhluta ríkisins í þeim rúmlega 1,7 milljörðum króna í árslok 2011.
Í skýrslunni er fjallað um kröfur ríkissjóðs á VBS fjárfestingabanka hf., Askar Capital hf. og Saga Capital hf. sem samtals nema um 52 milljörðum króna. Öll þessi félög hafa verið tekin til slitameðferðar og telur Ríkisendurskoðun líklegt að kröfurnar séu tapaðar.

Fjallað er um aðkomu ríkisins að fjárhagslegri endurskipulagningu Sjóvár árið 2009 en ríkissjóður veitti upphaflega 11,6 milljarða króna lán vegna hennar. Árið 2010 var krafan færð til eignaumsýslufélags í eigu Seðlabanka Íslands, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ), og síðar breytt í hlutafé. Eignarhlutur ESÍ í Sjóvá var þá 73%. Sama ár seldi ESÍ rúmlega 52% hlut í félaginu og hefur kaupandinn rétt til að kaupa þau tæplega 21% sem eftir standa. Heildartap ríkisins vegna þessara viðskipta nemur á bilinu 3,4–4,8 milljörðum króna. Í skýrslunni segir að tapið komi ekki á óvart enda hafi ríkið greitt 11,6 milljarða króna fyrir eignarhlut í félagi sem í reynd hafi verið gjaldþrota. Hins vegar telur Ríkisendurskoðun ekki tilefni til að gera athugasemdir við söluferlið eða ákvarðanir forsvarsmanna Seðlabankans og ESÍ í þessu sambandi.
Loks er í skýrslunni fjallað um ýmsar ábyrgðir sem féllu á ríkið við fall bankanna en samtals nemur kostnaður vegna þeirra um 31 milljarði króna.

Þess má geta að skýrslan var unnin að beiðni forsætisnefndar Alþingis, að frumkvæði Birkis Jóns Jónssonar alþingismanns.

Sjá nánar