Mótuð verði stefna um málefni safna og fjárveitingar til þeirra

Skýrsla til Alþingis

19.06.2012

Af alls níu ábendingum í skýrslu Ríkisendurskoðunar um safnamál frá árinu 2009 áréttar Ríkisendurskoðun tvær. Stofnunin hvetur mennta- og menningarmálaráðuneyti til að móta skýra heildarstefnu í málefnum safna og stefnu um fjárveitingar til þeirra.Í júní 2009 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um muna- og minjasöfn hér á landi og beindi þar alls níu meginábendingum til Alþingis og yfirvalda menntamála. Meðal annars var lagt til að stjórnvöld mótuðu heildarstefnu á þessu sviði og að forræði menntamálaráðuneytisins (nú mennta- og menningarmálaráðuneyti) í málaflokknum yrði aukið. Þá bæri að fækka söfnum eða auka samvinnu þeirra til að skapa öflugri rekstrareiningar. Enn fremur þyrfti að móta langtímastefnu um fjárveitingar til safnamála og fela einum aðila að samræma úthlutanir.

Nú réttum þremur árum síðar hefur verið brugðist við flestum þessara ábendinga með þeim hætti að ekki er talin þörf á að árétta þær. Alþingi hefur samþykkt ný safnalög þar sem komið er til móts við nokkrar þeirra, forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins í safnamálum hefur verið aukið og allmargar safnastofnanir sem áður heyrðu undir önnur ráðuneyti verið færðar undir það. Eins hefur styrkjakerfi safna verið einfaldað og safnaráð, sem sér um að úthluta styrkjum úr safnasjóði, hefur stuðlað að samvinnu og samruna safnastofnana með breyttum úthlutunarreglum. Þá hafa verið mótaðar reglur um styrkveitingar til safnastarfs og eftirfylgni með þeim.

Ríkisendurskoðun ítrekar engu að síður tvær ábendinga sinna. Annars vegar er mennta- og menningarmálaráðuneytið hvatt til að marka skýra heildarstefnu um málefni safna í samvinnu við höfuðsöfnin þrjú: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands. Þar komi fram meginmarkmið safnamála, leiðir að þeim og mælikvarðar á árangur. Hins vegar er ráðuneytið hvatt til að móta langtímastefnu um fjárveitingar til safnamála þar sem fram komi hvernig árlegum framlögum Alþingis verði skipt samkvæmt tiltekinni forgangsröðun.

Sjá nánar