Fella ber frumgreinanám að almennu framhaldsskólanámi

Skýrsla til Alþingis

31.05.2012

Frumgreinanám íslenskra skóla er í eðli sínu framhaldsskólanám sem ríkið kostar að stærstum hluta. Það lýtur þó hvorki lögum um framhaldsskóla né yfirstjórn menntayfirvalda. Ríkisendurskoðun telur að fella eigi námið að almennu framhaldsskólanámi og veita mennta- og menningar- málaráðuneyti ábyrgð á stefnumótun, stuðningi og eftirliti með því.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um lagaumgjörð, fyrirkomulag og fjármögnun svokallaðs frumgreinanáms íslenskra skóla og vikið að árangri nemenda sem hafa lokið því. Nám þetta, sem er í eðli sínu á framhaldsskólastigi, var upphaflega hugsað sem sértækt úrræði fyrir lítinn hóp iðnskólagenginna einstaklinga sem hugðu á verk- eða tæknifræðinám á háskólastigi. Á undanförnum árum hefur það hins vegar þróast í að verða æ almennari undirbúningur fyrir háskólanám og þar með nokkurs konar óformleg hliðstæða náms til stúdentspróf. Námið fellur þó hvorki undir lög um framhaldsskóla né lýtur yfirstjórn mennta- og menningarmálaráðuneytis, eins og almennt framhaldsskólanám. Það byggir á ákvæði í lögum um háskóla sem heimilar slíkum skólum að bjóða einstaklingum sem uppfylla ekki inntökuskilyrði þeirra sérstakt undirbúningsnám. Það kemur því í hlut háskólanna að setja náminu reglur eða staðfesta þær og ábyrgjast gæði þess og útskrift nemenda.

Að mati Ríkisendurskoðunar er óæskilegt að nám sem í meginatriðum miðar að sama marki og almennt framhaldsskólanám þróist án beinnar aðkomu menntayfirvalda og á „gráu svæði“ í íslensku skólakerfi. Þá sé frumgreinanámið ekki aðeins misviðamikið og að nokkru leyti breytilegt eftir skólum, heldur sé það líka að umfangi talsvert minna en krafist er til stúdentsprófs í aðalnámskrá framhaldsskóla. Eins séu vísbendingar um að frumgreinanemendur hafi þegar á heildina er litið ekki jafngóðar forsendur til að stunda almennt háskólanám og nemendur með stúdentspróf. Loks séu skiptar skoðanir innan háskólanna um hversu æskilegt sé að þeir komi að slíku námi. Af þessum ástæðum telur Ríkisendurskoðun rétt að fella frumgreinanámið undir lög um framhaldsskóla og veita mennta- og menningarmálaráðuneyti ábyrgð á stefnumótun, stuðningi og eftirliti með því. Sé slíkt ekki talið æskilegt sé að minnsta kosti mikilvægt að því sé sett skýr og afmörkuð lagaumgjörð.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að haustið 2011 voru um 640 nemendur skráðir í frumgreinanám við þrjá skóla: Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Keili ehf. sem býður námið í samstarfi við Háskóla Íslands. Áætlað sé að bein framlög ríkisins til kennslunnar nemi um 256 milljónum króna árið 2012 vegna 520 ársnemenda (ígildi nemenda sem stunda fullt nám á einu ári). Að auki veiti Lánasjóður íslenskra námsmanna lán bæði fyrir skólagjöldum og framfærslu nemenda og nýti langflestir þeirra sér þann möguleika. Þar sem kostnaður ríkisins nemi um 47% af útlánum Lánasjóðs íslenskra námsmanna sé ljóst að ríkið greiði á endanum langstærstan hluta þess kostnaðar sem af frumgreinanámi hlýst. Einnig þetta styrki það sjónarmið að yfirvöldum menntamála beri að auka aðkomu sína að náminu.

Sjá nánar