Eftirfylgni með skýrslu um útflutningsaðstoð og landkynningu

Skýrsla til Alþingis

30.04.2012

Allar ábendingar í skýrslu um útflutningsaðstoð og landkynningu frá árinu 2009 hafa komið til framkvæmda nema tvær. Ríkisendurskoðun fellur frá annarri þeirra en ítrekar hina.

Í skýrslunni Útflutningsaðstoð og landkynning, sem birt var í desember 2009, leitaðist Ríkisendurskoðun við að meta hvernig staðið væri að stjórnun og stefnumótun í málefnum útflutningsaðstoðar, landkynningar og erlendra fjárfestinga á Íslandi. Stofnunin beindi alls sjö ábendingum til Íslandsstofu og utanríkisráðuneytisins sem m.a. lutu að hlutverki Íslandsstofu, stjórnun og stefnumótun í málefnum útflutningsaðstoðar og landkynningar, fjárveitingum til málaflokksins og eftirliti með nýtingu þeirra.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú, tæplega tveimur og hálfu ári síðar, hafa allar ábendingarnar komið til framkvæmda nema tvær. Annars vegar lagði Ríkisendurskoðun til að Íslandsstofu yrði falið víðtækara hlutverk en gert var ráð fyrir í frumvarpi til laga sem þá lá fyrir Alþingi. Ríkisendurskoðun hefur nú fallið frá þessari ábendingu þar sem Alþingi tók í raun afstöðu til hennar með setningu laga um Íslandsstofu í maí 2010. Á hinn bóginn lagði Ríkisendurskoðun til að utanríkisráðuneytið héldi nákvæmt lostnaðarbókhald um erlenda markaðssókn, landkynningu og stuðning við gjaldeyrisaflandi starfsemi svo hægt yrði að greina heildarkostnað málaflokksins. Ríkisendurskoðun ítrekar nú þessa ábendingu.

Sjá nánar