Taka þarf af skarið um framtíð Náttúruminjasafnsins

Skýrsla til Alþingis

26.01.2012

Ríkisendurskoðun telur að Náttúruminjasafn Íslands uppfylli ekki lögbundndar skyldur sínar sem safn og höfuðsafn. Stjórnvöld þurfi að ákveða hvernig haga eigi starfseminni til framtíðar og móta skýra stefnu um hana. Annaðhvort verði safnið eflt sem sérstök stofnun eða sameinað annarri stofnun.Náttúruminjasafn Íslands var stofnað árið 2007 og hefur einkum það hlutverk að safna og varðveita muni sem tengjast náttúru Íslands, fræða almenning um hana og annast rannsóknir á starfssviði sínu. Safnið er svokallað „höfuðsafn“ sem þýðir að því er ætlað að vera miðstöð safnastarfsemi á sínu sviði í landinu, veita öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf og stuðla að samvinnu milli þeirra. Samkvæmt lögum á Náttúrufræðistofnun Íslands að vera faglegur og vísindalegur bakhjarl safnsins og leggja því til hluta safnkosts síns.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Náttúruminjasafnið sé að mörgu leyti enn á byrjunarreit og uppfylli hvorki lögbundnar skyldur sínar sem safn né höfuðsafn að fullu. Enn liggi ekki fyrir stefna fyrir safnið og starfsemin fari fram í óhentugu bráðabirgðahúsnæði sem setji safninu þröngar skorður. Sýningarhald sé enn ekki hafið og litlar líkur séu á því að fé fáist á næstu árum til að koma upp framtíðarhúsnæði fyrir safnið. Starfsmenn séu aðeins tveir og eiginlegur safnkostur bæði lítill og fábreytilegur. Ástæðan sé m.a. sú að safnið hafi ekki náð samkomulagi við Náttúrufræðistofnunin um skiptingu þeirra náttúrugripa sem hún varðveitir. Ekki hafi heldur tekist að koma á eðlilegu samstarfi milli þessara stofnana heldur ríki tortryggni og togstreita milli þeirra.

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að yfirvöld mennta- og menningarmála taki af skarið um það hvernig starfsemi Náttúruminjasafnsins verði háttað í framtíðinni. Í skýrslunni bent á tvo meginkosti í því sambandi: Annars vegar að efla safnið á núverandi grunni og tryggja að það hafi faglega og fjárhagslega burði til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Jafnframt þyrfti þá að koma á eðlilegu samstarfi og verkaskiptingu milli safnsins og Náttúrufræðistofnunar. Hinn kosturinn sé að breyta forsendum og umgjörð starfseminnar í grundvallaratriðum. Til greina komi t.d. að sameina Náttúruminjasafnið og Náttúrufræðistofnun og fela sameinaðri stofnun þau sérstöku verkefni á sviði safna- og sýningarmála sem safninu er ætlað að sinna samkvæmt lögum, gera safnið að sérstakri háskólastofnun innan Háskóla Íslands, hugsanlega með aðkomu Náttúrufræðistofnunar, eða endurvekja hugmynd um Náttúruhús.

Hver svo sem niðurstaðan verður þurfa yfirvöld mennta- og menningarmála að mati Ríkisendurskoðunar að móta framtíðarstefnu um starfsemi Náttúruminjasafns Íslands, setja því raunhæf markmið og faglegar og fjárhagslegar áætlanir og tryggja að þekktar hindranir komi ekki í veg fyrir að markmið náist. Þá telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að þegar nýjum stofnunum er komið á fót með lögum sé ávallt tryggt að vilji og stefna stjórnvalda komi skýrt fram, að lög og fjárveitingar séu í samræmi við þann vilja og að ábyrgð og verksvið stofnana skarist ekki óeðlilega mikið.

Sjá nánar