Skýrsla um endurskoðun ríkisreiknings 2010

Skýrsla til Alþingis

22.11.2011

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um framkvæmd og niðurstöður fjárhagsendurskoðunar hjá ríkinu fyrir árið 2010. Fjallað er um fjölmargar athugasemdir sem stofnunin gerði við bókhald, reikningsskil og fjármálastjórn ríkisins og bent á leiðir til úrbóta. Samkvæmt lögum er Ríkisendurskoðun falið að endurskoða ríkisreikning og reikninga stofnana, fyrirtækja, sjóða og hlutafélaga í eigu ríkisins. Regluleg fjárhagsendurskoðun er viðamesta verkefni stofnunarinnar en um helmingur starfsmanna sinnir því. Gerð er grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum þessarar vinnu í árlegri skýrslu til Alþingis sem jafnframt er birt opinberlega.

Með áritun sinni á ríkisreikning 2010 staðfesti ríkisendurskoðandi að reikningurinn gæfi glögga mynd af afkomu ríkissjóðs, ríkisstofnana, fyrirtækja og sjóða í A- til E-hluta ríkissjóðs, efnahag í árslok og breytingu á handbæru fé á árinu í samræmi við lög um ársreikninga og fjárreiður ríkisins. Áritunin var fyrirvaralaus.

Í skýrslunni Endurskoðun ríkisreiknings 2010 er megináhersla lögð á þær athugasemdir sem Ríkisendurskoðun gerði við bókhald, reikningsskil og fjármálastjórn ríkisins og bent á ýmsar leiðir til úrbóta. M.a. er vakin athygli á því að einkafyrirtæki og sveitarfélög færi svokallaða varanlega rekstrarfjármuni til eignar og fyrni þá síðan árlega en hjá ríkinu séu slíkir fjármunir gjaldfærðir að fullu á kaupári. Ríkisendurskoðun leggur til að reikningsskilareglum verði breytt á þann veg að varanlegir rekstrarfjármunir verði eignfærðir hjá ríkinu og síðan fyrndir á sama hátt og hjá einkafyrirtækjum og sveitarfélögum. Þá leggur stofnunin til að komið verði á fót miðlægri innri endurskoðunardeild á vegum framkvæmdarvaldsins og að dregið verði úr svokölluðum „opnum heimildum“ í fjárlögum en það eru útgjaldaheimildir sem ekki fela í sér hámarksfjárhæðir. Fjölmargar fleiri athugasemdir og ábendingar er að finna í skýrslunni.

Sjá nánar