Ágætlega hefur tekist að halda lyfjakostnaði í skefjum

Skýrsla til Alþingis

16.11.2011

Framboð lyfja hér á landi er mun minna en annars staðar á Norðurlöndum. Því hafa íslenskir neytendur ekki sama aðgang að ódýrum lyfjum og neytendur þar. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að beita sér fyrir úrbótum á þessu sviði. Athugun stofnunarinnar bendir hins vegar til þess að verð lyfja sem bæði fást hér og í hinum norrænu ríkjunum sé nú sambærilegt.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er m.a. fjallað um hvernig lyfjakostnaður ríkisins hefur þróast á undanförum árum. Fram kemur að á árunum 2008–10 hafi stjórnvöld náð verulegum árangri í viðleitni sinni til að halda honum í skefjum. Heildarkostnaður ríkisins vegna lyfjakaupa nam 17,9 milljörðum króna árið 2009 en hefði orðið 20,5 milljarðar króna ef sú mikla lækkun sem varð á gengi krónunnar milli áranna 2008 og 2009 hefði komið að fullu fram í verði lyfjanna. Milli áranna 2009 og 2010 styrktist gengi krónunnar örlítið en styrkingin skýrir þó aðeins að hluta þann 1,2 milljarða króna sparnað sem þá náðist í lyfjakaupum ríkisins.

Fram kemur að vegna smæðar íslenska markaðarins sé framboð lyfja hér mun minna en annars staðar á Norðurlöndum. Dýrt og fyrirhafnarsamt sé að sækja um markaðsleyfi fyrir lyf og ágóðavon lyfjaframleiðenda sé hér minni en á stærri mörkuðum. Því sjái þeir sér iðulega ekki hag í því að sækja um markaðsleyfi hér eða nýti ekki leyfi sem þeir hafi þegar fengið. Minna framboð lyfja hér en annars staðar á Norðurlöndum veldur því að íslenskir neytendur hafa ekki sama aðgang ódýrum lyfjum (m.a. samheitalyfjum) og neytendur í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að vinna að því, í samvinnu við yfirvöld annarra ríkja, að Íslendingar fái aðgang að stærri lyfjamörkuðum og að lyfjum sem boðin eru til sölu hér fjölgi. Með því mætti að mati stofnunarinnar ná niður lyfjakostnaði bæði hins opinbera og einstaklinga.

Lyfjagreiðslunefnd ákveður hámarksverð á lyfseðlisskyldum lyfjum og hvort ríkið, í gegnum Sjúkratryggingar Íslands, skuli taka þátt í lyfjakostnaði einstaklinga og þá í hvaða mæli. Auk þess á nefndin að sjá til þess að lyfjaverð sé að jafnaði sambærilegt hér á landi og í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Athugun Ríkisendurskoðunar bendir til þess að verð lyfja sé nú almennt sambærilegt hér og í þessum löndum en það var áður hærra hér. Þá er átt við lyf sem fást í öllum löndunum fimm en vera má að í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð séu á markaði ódýrari lyf sem hafa sömu eða svipaða virkni, sbr. það sem áður segir um takmarkað lyfjaframboð hér á landi.

Sjá nánar