Móta þarf heildarstefnu um mannauðsmál ríkisins

Skýrsla til Alþingis

29.09.2011

Mannauðsstjórnun hjá ríkinu er almennt ekki eins öflug og hjá einkafyrirtækjum. Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld þurfi að meta veikleika í mannauðsmálum ríkisins og ákveða hvernig bregðast skuli við þeim. Þá eigi að fela starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins aukið hlutverk á þessu sviði.Mannauðsstjórnun felst m.a. í því að beita markvissum aðferðum til að efla starfsmenn og bæta frammistöðu þeirra. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að mannauðsstjórnun hjá ríkinu sé vanþróuð og almennt ekki eins öflug og hjá einkafyrirtækjum. Verulega skortir á að frammistaða allra ríkisstarfsmanna sé metin formlega og reglubundið. Þá er lítið um að frammistaða þeirra sé tengd launum. Ríkisendurskoðun leggur til að stjórnvöld leiti fyrirmynda á öðrum Norðurlöndum um það hvernig unnt sé að bæta úr þessu.

Að mati Ríkisendurskoðunar þurfa stjórnvöld að móta formlega heildarstefnu um mannauðsmál sem nái til allra ráðuneyta og stofnana ríkisins. Að því loknu þarf að tryggja að eftir stefnunni verði farið. Ákveða þarf hvers konar vinnuveitandi ríkið skal vera og hvernig það geti laðað til sín hæft starfs­fólk og haldið því. Til að unnt sé að móta slíka stefnu þarf þó fyrst að greina mögulega veikleika í mannauðsmálum ríkisins. Má þar t.d. nefna að nú er svo komið að tæplega helmingur ríkisstarfsmanna er eldri en 50 ára og allt stefnir í að fjórðungur þeirra fari á lífeyri á næstu fimm árum. Þetta hlutfall er með því hæsta meðal ríkja Efnahagssamvinnu- og framfarastofnunarinnar (OECD). Einnig má nefna að verulegur munur er á launakjörum ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði, mestur meðal háskólamenntaðra sérfræðinga. Þá má benda á að tveir af hverjum þremur ríkisstarfsmönnum eru konur en þær eru hins vegar einungis þriðjungur forstöðumanna ríkisstofnana og stjórnenda ráðuneytanna. Við stefnumótun um mannauðsmál ríkisins þurfa stjórnvöld að ákveða hvernig bregðast eigi við þessum veikleikum og öðrum.

Í skýrslunni kemur fram að í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hafi stjórnvöld ráðist í umfangsmiklar samdráttaraðgerðir. Breytingar hafi verið gerðar á skipulagi stjórnsýslunnar og á starfskjörum ríkisstarfsmanna.  Ársverkum þeirra hafi fækkað um 6,5% frá árinu 2008. Á sama tíma hafi spurn eftir opinberri þjónustu vaxið. Þrátt fyrir þetta hafi tekist að halda uppi sama þjónustustigi og var fyrir hrunið. Ríkisendur­skoðun telur að stjórnvöld þurfi að horfa til þessara breytinga við mótun mannauðsstefnu fyrir ríkið.

Starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur m.a. það hlutverk að fjalla almennt um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, túlka lög þar um og ákvæði kjarasamninga. Ríkisendurskoðun telur að útvíkka eigi hlutverk skrifstofunnar þannig að það taki til fleiri þátta mannauðsmála. Hún eigi að veita stofnunum víðtækari aðstoð og ráðgjöf á þessu sviði en hún gerir nú. Einnig eigi hún að fylgjast með starfsmannaveltu og fjölda veikindadaga ríkisstarfsmanna. Ekki liggja fyrir samræmdar upplýsingar um þessa þætti hjá ríkisstofnunum og telur Ríkisendurskoðun brýnt að úr því verði bætt. Móta þarf áætlanir um hvernig bregðast skuli við ef launamunur fer að hafa veruleg áhrif á starfsmannaveltu ríkisstofnana. Enn fremur telur Ríkisendurskoðun að skrifstofan eigi að hafa forystu um að meta framtíðarþörf ríkisins og einstakra stofnana þess fyrir vinnuafl með mismunandi menntun og hæfni.

Í skýrslunni kemur fram að vinnuálag á ríkisstarfsmenn hafi aukist í kjölfar hrunsins. Að mati Ríkisendurskoðunar þurfa stjórnvöld að leitast við að draga úr álagi þar sem það er óeðlilega mikið. Þannig sé unnt að koma í veg fyrir að veikindaforföll og starfsmannavelta verði of mikil með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið. Ríkisendurskoðun tekur undir hugmyndir fjármálaráðu­neytisins um að mótuð verði svokölluð gæðaviðmið í mannauðsmálum sem öllum stofnunum ríkisins verði gert að fylgja. Enn fremur telur stofnunin brýnt að mótuð verði sérstök stefna í málefnum stjórnenda hjá ríkinu og að henni verði fylgt eftir.

Sjá nánar