Ráðherra veitti ófullnægjandi svar við fyrirspurn um aðkeypta þjónustu

Skýrsla til Alþingis

22.06.2011

Þingmaður spurði á síðasta ári forsætisráðherra um kaup ráðuneytanna á þjónustu af starfsmönnum félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Ríkisendurskoðun telur að svar ráðherrans hafi verið ófullnægjandi. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um greiðslur ráðuneyta til starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og svar forsætisráðherra við fyrirspurn á Alþingi um þær. Málavextir eru í stuttu máli þeir að haustið 2010 beindi Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður fyrirspurn til forsætisráðherra um kostnað ráðuneyta við aðkeypta þjónustu, ráðgjöf og sérverkefni af starfsmönnum félagsvísindasviðs frá maí 2007 til nóvember 2010. Skriflegt svar forsætisráðherra var lagt fram á Alþingi um miðjan desember þetta ár. Þingmaðurinn taldi svarið rangt og fór fram á það við forsætisnefnd Alþingis að Ríkisendurskoðun yrði falið að vinna skýrslu um efnið.

Forsætisráðuneytið aflaði gagna hjá öðrum ráðuneytum til að hægt væri að svara fyrirspurn þingmannsins. Í svarinu er einungis fjallað um verktakagreiðslur til fastráðinna starfsmanna félagsvísindasviðs. Hvorki er minnst á greiðslur til félaga í þeirra eigu, sem voru umtalsverðar á tímabilinu, né greiðslur til stundakennara. Þá er ekki fjallað um launagreiðslur til þeirra starfsmanna sviðsins sem voru í ráðningarsambandi við ráðuneytin á tímabilinu. Ríkisendurskoðun telur að miðað við orðlag fyrirspurnarinnar hafi átt að tilgreina greiðslur til félaga í eigu starfsmanna félagsvísindsviðs í svari forsætisráðherra. Hins vegar gerir stofnunin ekki athugasemd við þá ákvörðun forsætisráðuneytisins að tilgreina ekki greiðslur til stundakennara né starfsmanna sem unnu launavinnu fyrir ráðuneytin.

Fram kemur í skýrslunni að ráðuneytið hafi talið tormerki á að afla upplýsinga um greiðslur til félaga í eigu starfsmanna félagsvísindasviðs. Þetta mat ráðuneytisins kemur hins vegar ekki fram í svarinu né heldur skilningur þess á efni á fyrirspurnarinnar. Að mati Ríkisendurskoðunar hefði ráðuneytið að lágmarki átt að setja fyrirvara í svarið um að það næði ekki yfir greiðslur til félaga í eigu starfsmanna. Í skýrslunni eru birtar upplýsingar um þessar greiðslur á umræddu tímabili en þær námu samtals um 37 milljónum króna.

Að mati Ríkisendurskoðunar er ljóst að ráðuneytin höfðu mismunandi skilning á efni fyrirspurnarinnar. Engu að síður voru upplýsingar frá þeim birtar óbreyttar í svari forsætisráðherra. Þetta hefur í för með sér að í svarinu koma fram upplýsingar sem ekki eiga að vera þar miðað við skilning forsætisráðuneytisins og aðrar vantar. Tekið er fram í skýrslunni að ekki sé ástæða til að ætla að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt. Hins vegar telur Ríkisendurskoðun að forsætisráðuneytið hefði þurft að tryggja betur en gert var að skilningur ráðuneytanna á efni fyrirspurnarinnar væri samræmdur. Almennt telur stofnunin að þegar fyrirspurn er beint til ráðherra á Alþingi og atbeina annarra ráðuneyta en þess sem hann stýrir þarf til að svara henni, þá eigi ráðuneyti hans að tryggja samræmdan skilning á efni hennar.

Forsætisráðuneytið hefur lýst því við Ríkisendurskoðun að það hafi ekki getað lagt mat á svör einstakra ráðuneyta því það hafi ekki haft aðgang að nauðsynlegum upplýsingum til þess. Að mati Ríkisendurskoðunar verður að tryggja að forsætisráðuneytið hafi aðgang að sömu upplýsingum og önnur ráðuneyti taki það að sér að svara fyrirspurnum sem þessari.

Í skýrslubeiðni forsætisnefndar til Ríkisendurskoðunar er tekið fram að birta skuli upplýsingar um alla aðkeypta þjónustu, ráðgjöf og sérverkefni, hvort sem um er að ræða tímabundin störf eða verktakavinnu. Því eru í skýrslunni birtar upplýsingar um launagreiðslur ráðuneytanna til starfsmanna félagsvísindasviðs á umræddu tímabili. Einungis eru þó birtar upplýsingar um heildargreiðslur hvers ráðuneytis enda óheimilt að birta upplýsingar um greiðslur til einstaklinga samkvæmt túlkun úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Ríkisendurskoðun telur að fjármálaráðuneytið  þurfi að setja reglur um hvenær megi nota launakerfi ríkisins til að greiða fyrir sérumbeðna sérfræðiþjónustu. Núverandi fyrirkomulag sé ógegnsætt og geti hamlað yfirsýn um kostnað við aðkeypta þjónustu. Loks telur stofnunin nauðsynlegt að ráðuneytin hafi ávallt góða yfirsýn um þau verkefni sem utanaðkomandi sérfræðingar vinna fyrir þau, hvort sem greiðslur renna til einstaklinga eða félaga í þeirra eigu.

Sjá nánar