Herða þarf útlánareglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Skýrsla til Alþingis

10.06.2011

Ríkisendurskoðun leggur til að sérstakri nefnd verði falið að meta lánshæfi náms hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Lán sjóðsins til skólagjalda eigi ekki að vera hærri en raunkostnaður kennslu og eðlilegt sé að réttur til námslána verði bundinn við tiltekinn aldur. Þá varar stofnunin við því að líklegt sé að endurheimtur námslána muni versna á komandi árum.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um útlánareglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og þróun útlána sjóðsins. Fram kemur að sjóðurinn leggur sjálfur mat á lánshæfi náms en bæði stjórnendur sjóðsins og Ríkisendurskoðun telja það fyrirkomulag óheppilegt. Í skýrslunni er lagt til að menntamálayfirvöld skipi sérstaka nefnd til að annast þetta verkefni. Slíkar nefndir starfa annarsstaðar á Norðurlöndunum. Einnig er lagt til að einungis verði veitt lán vegna náms sem uppfyllir skilgreindar gæðakröfur menntamálayfirvalda en dæmi eru um að sjóðurinn hafi veitt lán vegna náms sem ekki gerir það.

Samkvæmt lögum um LÍN má sjóðurinn einungis veita lán vegna náms á háskólastigi eða raunverulegs sérnáms. Engu að síður hefur hann á undanförnum árum veitt lán vegna náms sem ekki uppfyllir framangreind skilyrði, m.a. svokallaðs frumgreinanáms sem veitir rétt til að hefja háskólanám. Að mati Ríkisendurskoðunar er brýnt að sjóðurinn fari í einu og öllu að lögum sem um hann gilda. Verði lögum breytt og sjóðnum heimilað að lána til frumgreinanáms eða annars undirbúningsnáms fyrir háskóla- eða starfsnám yrði jafnframt að gefa öllum framhaldsskólanemum kost á námslánum á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Fram kemur að útlán LÍN hafi aukist verulega undanfarinn áratug vegna fjölgunar lánþega og hækkunar lánsfjárhæða. Árið 2001 lánaði sjóðurinn um 4,3 milljarða króna til námsmanna en sú upphæð var komin upp í um 15,7 milljarða árið 2010. Ríkissjóður ber rúmlega helm­ing kostnaðar vegna útlána sjóðsins, m.a. sökum þess að fjármögnunarkostnaður hans er mun hærri en útlánavextir. Framlag ríkissjóðs meira en þrefaldaðist á fyrrnefndu tímabili, nam um 2,4 milljörðum króna í upphafi þess en 8,4 milljörðum í lok þess.

Bæði lán til framfærslu námsmanna og skólagjalda eru niðurgreidd af ríkinu. Að mati Ríkisendurskoðnar þarf að tryggja að skólagjaldalán vegna náms við íslenska skóla séu ekki hærri en raunkostnaður kennslunnar. Einnig telur stofnunin að þrengja eigi reglur um skólagjaldalán vegna náms erlendis. Þá sé eðlilegt að réttur til námslána takmarkist við tiltekinn aldur, t.d. 18–50 ár, líkt og gert er víða erlendis. Hámarkslán til námsmanns eigi að miðast við að einstaklingur með meðaltekjur næði að greiða það upp fyrir 60 ára aldur. Vegna þeirra fjárhagslegu langtímaskuldbindinga sem felast í námslánum og kannana sem benda til þess að þekkingu almennings á fjármálum sé ábótavant telur Ríkisendurskoðun að LÍN þurfi að upplýsa lánþega um skuldbindingar þeirra með markvissari hætti en nú er gert.

Fjárhagsstaða LÍN er að mati Ríkisendurskoðunar sterk um þessar mundir en teikn eru á lofti um að endurheimtur námslána muni versna á næstu árum og kostnaður ríkissjóðs vegna starfseminnar aukast. Í því sambandi má t.d nefna að undanþágum sem stjórn sjóðsins veitir frá endursgreiðslu lána, s.s. vegna greiðsluerfiðleika eða atvinnuleysis, hefur fjölgað að undanförnu. Þá hefur lánþegum á miðjum aldri fjölgað og margir lánþegar skulda háar fjárhæðir. Af þeim sem hófu endurgreiðslu námslána árið 2010 skulduðu um 16% meira en 6 milljónir króna og samtals rúmlega 40% af heildarskuldum hópsins. Námslán afskrif­ast að fullu við and­lát lánþega og þar sem endurgreiðsla er að hluta til tekju­tengd ná þeir sem taka há lán en hafa meðal­­­­tekjur ekki að endur­greiða lánin að fullu. Þess ber að geta að til að mæta kostnaði vegna afskrifta hefur sjóðurinn fært fé á afskriftareikning en hann nam samtals um 20 milljörðum króna í árslok 2010.

Sjá nánar