Um flest staðið vel að sameiningu landlæknisembættisins og Lýðheilsustofu

Skýrsla til Alþingis

07.06.2011

Vel var staðið að flestum þáttum við undirbúning sameiningarinnar en Ríkisendurskoðun bendir þó á nokkra þætti sem betur hefðu mátt fara.Í maí sl. samþykkti Alþingi lög sem fólu í sér sameiningu landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar. Með henni átti m.a. að bæta þjónustu, auka hagkvæmni rekstrar, draga úr yfirbyggingu og skörun verkefna og nýta krafta starfsfólks sem best.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stofnunin telur að velferðarráðuneytið og stýrihópur sameiningarinnar hafi staðið vel að flestum þáttum við undirbúning hennar. Skipulag og verkstjórn hafi verið skýr og áhersla hafi verið lögð á þátttöku starfsmanna og reglulega miðlun upplýsinga. Þá hafi verið leitað til fagaðila um ráðgjöf við sameininguna.

Engu að síður bendir Ríkisendurskoðun á nokkra þætti sem betur hefðu mátt fara:

  • Ekki var gerð úttekt á mögulegum fjárhagslegum ávinningi sameiningar áður en hún fór fram. Ríkisendurskoðun telur brýnt að slík úttekt verði gerð. Fyrr sé ekki hægt að segja til um hvort sameiningin muni skila sér í aukinni rekstrarhagkvæmni þegar til lengri tíma er litið.
  • Ekki var unnin kostnaðaráætlun um framkvæmd sameiningar en Ríkisendurskoðun telur að jafnan eigi að leggja fram slíka áætlun þegar ráðist er í sameiningu stofnana.
  • Við lokaafgreiðslu málsins samþykkti Alþingi breytingartillögu sem þýddi að vikið var í veigamiklum atriðum frá upphaflegri áætlun um sameiningu. Breytingin fól í sér að í stað eiginlegrar sameiningar stofnananna var landlæknisembættið í raun útvíkkað. Að mati Ríkisendurskoðunar eru slík frávik frá markaðri stefnu varasöm enda hefur breytingin haft neikvæð áhrif á hluta starfsmanna.

Að auki beinir Ríkisendurskoðun eftirfarandi ábendingum til landlæknisembættisins:

  • Mikilvægt er að embættið ljúki við að útfæra langtímastefnu fyrir hina nýju sameinuðu stofnun.
  • Nauðsynlegt er að lokið verið við gerð rekstraráætlunar fyrir hina nýju sameinaðu stofnun
  • Brýnt er að stutt verði við starfsfólk í því breytingarferli sem framundan er.

Sjá nánar