Ítrekar ábendingar um innra eftirlit hjá ráðuneytunum

Skýrsla til Alþingis

23.03.2011

Ríkisendurskoðun fagnar umbótum á innra eftirliti ráðuneytanna en hvetur þau jafnframt til að gera enn betur á þessu sviði.

Á árunum 2006–2009 kannaði Ríkisendurskoðun nokkra þætti innra eftirlits hjá aðalskrifstofum ráðuneytanna. Með innra eftirliti er átt við ýmsar ráðstafanir, aðgerðir og ferla sem stuðla að því að meðferð fjármuna sé í samræmi við reglur og markmið starfseminnar náist. Athuganir Ríkisendurskoðunar leiddu í ljós ýmsa veikleika, m.a. var faglegu og fjárhagslegu eftirliti ráðuneyta með undirstofnunum ábótavant, kostnaður vegna stjórnsýslu var bókfærður á mismunandi hátt og heildaryfirsýn um styrki á vegum opinberra aðila skorti. Þá voru upplýsingatækniverkefni í miklum ólestri.

Nú nokkrum árum eftir að þessar athuganir voru gerðar hafa ráðuneytin bætt úr mörgum þessara annmarka og lýsir Ríkisendurskoðun ánægju sinni með það. Stofnunin ítrekar engu að síður nokkrar ábendingar sem ráðuneytin hafa enn ekki brugðist við. Í meginatriðum eru þær þríþættar: Setja þarf samræmdar reglur vegna gjaldfærslna á safnliði, skilgreina þarf hvaða kostnað eigi að flokka sem stjórnsýslukostnað og bæta þarf eftirfylgni og mat á árangri styrkveitinga.

Sjá nánar