Vel staðið að sameiningu ráðuneyta

Skýrsla til Alþingis

17.02.2011

Ríkisendurskoðun telur að um flest hafi verið vel staðið að sameiningu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis.Í byrjun þessa árs tók innanríkisráðuneyti til starfa með sameiningu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að um flest hafi vel verið staðið að undirbúningi og framkvæmd sameiningarinnar. Ákvörðun um hana hafi verið tekin að vel athuguðu máli, markmið hennar hafi verið skýr sem og verkstjórn og verkaskipting í sameiningarferlinu.

Engu að síður telur Ríkisendurskoðun að áætla þurfi kostnað sameiningarinnar betur en gert hefur verið. Einnig sé brýnt að ljúka langtímastefnumótun og gerð verklagsreglna og rekstraráætlunar fyrir hið nýja ráðuneyti.  Þá bendir stofnunin á mikilvægi þess að áfram verði stutt við starfsfólk ráðuneytisins í því breytingaferli sem framundan er.

Ríkisstjórnin kynnti haustið 2009 áform um að endurskipuleggja opinbera þjónustu og sameina stofnanir. Í kjölfarið ákvað Ríkisendurskoðun að fylgjast grannt með því hvernig þessi áform myndu ganga fram. Verkefnið flokkast undir svokallað samtímaeftirlit. Skýrslan um sameiningu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis er sú fjórða sem Ríkisendurskoðun gefur út um niðurstöður athugana á sameiningu ríkisstofnana. Áður eru komnar út skýrslur um sameiningu skattumdæma landsins, Þjóðskrár og Fasteignaskrár og Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf.

Sjá nánar