Ríkisendurskoðun ítrekar ábendingar frá 2007 um háskólakennslu

Skýrsla til Alþingis

20.12.2010

Ríkisendurskoðun fagnar ýmsum jákvæðum breytingum í starfi háskóla frá því stofnunin birti skýrslu um háskólakennslu árið 2007. Engu að síður ítrekar stofnunin nú nokkrar ábendingar skýrslunnar og setur fram eina nýja.Fyrir þremur árum birti Ríkisendurskoðun skýrslu um nýtingu ríkisframlaga til háskólakennslu. Borin voru saman nokkur atriði sem tengjast kennslu í viðskiptafræði, lögfræði og tölvunarfræði við fjóra háskóla: Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst. Leitast var við að meta kostnað kennslunnar, skilvirkni hennar og að nokkru leyti gæði. Að auki var kennsla þessara skóla í viðskiptafræði borin saman við viðskiptanám í völdum erlendum háskólum.

Í skýrslunni var ýmsum ábendingum beint til bæði skólanna og menntayfirvalda. Í eftirfylgniskýrslu kemur fram að Ríkisendurskoðun telur að ýmsar jákvæðar breytingar hafi orðið í starfi háskólanna á síðustu árum. Meðal annars fagnar stofnunin viðleitni skólanna til að draga úr brottfalli nemenda og auknu gæðaeftirliti mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Engu að síður ítrekar stofnunin nú 7 ábendingar úr skýrslunni frá 2007 en þær beinast allar að ráðuneytinu:

  • Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið þurfi að móta heildarstefnu um málefni háskólanna þar sem fram komi hvernig verja eigi fjárveitingum til þeirra. Þegar hefur verið mótuð stefna um opinberu háskólana en að mati Ríkisendurskoðunar þarf einnig að móta stefnu sem nær til allra háskóla.
  • Ríkisendurskoðun telur að setja þurfi skýrar kröfur um akademíska stöðu háskóla á tilteknum fræðasviðum. Opinber viðurkenning á námi verði háð því að skóli uppfylli þessar kröfur.
  • Ráðuneytið er hvatt til að halda áfram að afla samræmdra upplýsinga frá háskólunum, vinna úr þeim og birta opinberlega.
  • Ráðuneytið er hvatt til að halda áfram að þróa mælikvarða um kostnað, skilvirkni og gæði háskóla.
  • Ráðuneytið er hvatt til að vinna áfram að því að draga úr brottfalli nemenda, t.d. með því að takmarka inntöku í grunnnám eða auka kröfur um námsframvindu.
  • Ráðuneytið er hvatt til að ljúka endurskoðun á reiknilíkani því sem notað er til að ákvarða fjárveitingar til háskóla. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að fjárveitingar til skólanna ráðist að einhverju leyti af fjölda brautskráðra nemenda.
  • Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið eigi að leitast við að hafa meiri áhrif en hingað til á fjölda nemenda í hverri grein. Við slíka ákvörðun verði m.a. tekið mið af þörf samfélagsins fyrir mismunandi menntun.

Ríkisendurskoðun kannaði hvernig nokkrir þættir í starfsemi skólanna hafa þróast frá því að skýrslan kom út, m.a. brottfall, tekjusamsetning og skóla- og skráningargjöld. Almennt hefur dregið úr brottfalli en það er sem fyrr meira í ríkisháskólunum en þeim einkareknu. Þá hafa ríkisframlög til skólanna hækkað sem og skólagjöld í einkareknu háskólunum.

Ríkisendurskoðun telur að huga þurfi að því hvort fjármögnunarkerfi háskólanna skapi óeðlilegan aðstöðumun milli þeirra og hamli auknu samstarfi. Tryggja þurfi að fjármögnunarkerfi háskóla stuðli að því að stefna stjórnvalda nái fram og skattfé nýtist á hagkvæman og árangursríkan hátt.

Sjá nánar