Ítrekar ábendingar um aðgerðir gegn fíkniefnasmygli

Skýrsla til Alþingis

22.11.2010

Stjórnvöld hafa farið að flestum ábendingum í skýrslu Ríkisendurskoðunar um aðgerðir gegn fíkniefnasmygli sem birt var fyrir þremur árum. Stofnunin ítrekar nú fjórar ábendingar sem annaðhvort hefur ekki verið fylgt eða einungis að hluta.Í nóvember árið 2007 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um ráðstafanir stjórnvalda til að stemma stigu við innflutningi ólöglegra fíkniefna til landsins. Þar voru settar fram ýmsar ábendingar um úrbætur á skipulagi og aðferðum við fíkniefnaeftirlit á landamærum ríkisins. Þá voru stjórnvöld hvött til að móta heildræna stefnu í fíkniefnamálum.

Nú réttum þremur árum síðar hefur flestum ábendingum skýrslunnar verið fylgt. Ekki hefur þó verið farið að þremur ábendingum og einni hefur aðeins verið fylgt að hluta. Í nýrri skýrslu hvetur Ríkisendurskoðun hlutaðeigandi stjórnvöld til að ráða bót á þessu.

Í fyrsta lagi er forsætisráðuneytið hvatt til þess að hafa forgöngu um mótun heildrænnar stefnu í fíkniefnamálum sem taki bæði til aðgerða til að hefta framboð slíkra efna og spurn eftir þeim. Að mati Ríkisendurskoðunar væri eðlilegt að slík stefnumótun yrði samvinnuverkefni margra ráðuneyta og stofnana.

Í öðru lagi er efnahags- og viðskiptaráðuneytið hvatt til að koma á fót gagnagrunni um gjaldeyriskaup og fjármagnsfærslur sem löggæsluaðilar fái aðgang að. Slíkur gagnagrunnur hefur um nokkurt skeið verið starfræktur í Noregi og gefið góða raun.

Í þriðja lagi er utanríkisráðuneytið hvatt til að kanna möguleika á því að herða reglur um tilkynningaskyldu skipa. Tekið er fram að þetta kunni þó að vera vandkvæðum háð, m.a. vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Loks er Tollstjóri hvattur til að þróa áfram mælingar á árangri fíkniefnaeftirlits á landamærum ríkisins. Fram kemur að embættið hafi að undanförnu leitast við að meta árangur þessa eftirlits, m.a. samfélagsleg áhrif þess.

Samkvæmt 9. gr. laga um Ríkisendurskoðun felst stjórnsýsluendurskoðun í því að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár. Stofnunin skal vekja athygli á því sem hún telur að úrskeiðis hafi farið í rekstri og benda á leiðir til úrbóta. Hverri stjórnsýsluúttekt er fylgt eftir með athugun á því hvernig brugðist hefur verið við ábendingum hennar. Slík eftirfylgni fer fram u.þ.b. þremur árum eftir útgáfu skýrslu.

Sjá nánar