Mikilvægt að eyða óvissu um framtíð RES Orkuskóla

Skýrsla til Alþingis

29.10.2010

Óvissa ríkir um fjárhagslegan og faglegan rekstrargrundvöll skólans. Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld eigi um tvennt að velja: Annaðhvort að hætta stuðningi við skólann eða yfirtaka starfsemina. Brýnt er að ákvörðun verði tekin sem fyrst.Árið 2007 var stofnaður alþjóðlegur skóli á Akureyri til að sinna rannsóknum og kennslu á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, RES Orkuskóli (The School for Renewable Energy Science). Hann starfar í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands sem bera faglega ábyrgð á kennslu innan hans og brautskráningu nemenda. Frá stofnun hafa á annað hundrað nemendur stundað nám við skólann, langflestir erlendir. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að upphaflega hafi staðið til að skólinn yrði að stærstum hluta í eigu einkaaðila. Þetta markmið hefur ekki náðst því stofnanir og fyrirtæki ríkisins eiga nú rúmlega helmingshlut í einkahlutafélaginu Orkuvörðum sem á og rekur skólann.

Í skýrslunni segir einnig að við stofnun RES Orkuskóla hafi verið stefnt að því að starfsemin yrði að mestu leyti fjármögnuð með styrkjum og skólagjöldum. Þetta markmið hefur heldur ekki náðst því um helmingur rekstrartekna hans hefur hingað til komið beint eða óbeint frá ríkinu. Aðeins lítill hluti ríkisframlaga hefur þó byggst á formlegum samningum, eins og Ríkisendurskoðun telur að ávallt eigi að gera þegar stjórnvöld ákveða að veita fé til einkaskóla.

RES Orkuskóli hefur frá upphafi verið rekinn með tapi, skuldir hans eru miklar og eiginfjárstaða orðin neikvæð. Það eykur enn á fjárhagsvanda skólans að í lok þessa árs mun styrkur sem runnið hefur til hans úr Þróunarsjóði EFTA falla niður en hann hefur verið um þriðjungur tekna skólans frá upphafi. Að mati Ríkisendurskoðunar er fjárhagslegur grundvöllur skólans afar veikur og óvíst að hann sé rekstrarhæfur. Við þetta bætist að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hafa sagt upp samstarfssamningum sínum við skólann með gildistöku frá og með ársbyrjun 2011. Það skapar verulega óvissu um faglegan grundvöll starfseminnar því að RES Orkuskóli getur hvorki innritað né brautskráð nemendur á eigin vegum þar sem hann er ekki viðurkenndur háskóli.
Forsvarsmenn RES Orkuskóla telja mögulegt að tryggja rekstur skólans til næstu ára og hafa lagt fram áætlun um hvernig það verði gert. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að aukins hlutafjár verði aflað, samið verði við stjórnvöld um föst fjárframlög til starfseminnar, tekjur af skólagjöldum aukist og kostnaður verði skorinn niður. Að mati Ríkisendurskoðunar byggir áætlunin á ótryggum forsendum og væntingum sem óvíst er hvort gangi eftir.

Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld þurfi að taka skjóta en vel ígrundaða ákvörðun um framtíð RES Orkuskóla. Í því efni er í raun aðeins um tvennt að velja að mati stofnunarinnar: Annaðhvort að ríkið hætti stuðningi sínum við skólann, sem þýddi líklega að hann legðist af, eða yfirtaki starfsemina og leggi hana undir Háskólann á Akureyri og/eða Háskóla Íslands. Vegna óvissu í rekstri skólans mælir Ríkisendurskoðun ekki með því að ríkið semji við hann um takmarkaðan fjárstuðning í eitt ár né geri við hann langtímasamning. Að mati stofnunarinnar er mikilvægt að óvissu um framtíð skólans verði eytt eins fljótt og mögulegt er.

Sjá nánar