Skrifstofa Alþingis endurskoði verklag við innkaup

Skýrsla til Alþingis

26.10.2010

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér sjálfstæða ábendingu þar sem skrifstofa Alþingis er hvött til að endurskoða verklag sitt við verðfyrirspurnir og útboð.Í nóvember á þessu ári verður þing Norðurlandaráðs haldið í Reykjavík en Alþingi sér um framkvæmd þess. Í lok síðasta árs óskaði skrifstofa Alþingis eftir tilboðum í tækniþjónustu á þinginu frá tveimur fyrirtækjum, Exton ehf. og Sense ehf. Ákveðið var að ganga til samninga við síðarnefnda fyrirtækið sem bauð umtalsvert lægra verð. Hitt fyrirtækið, Exton ehf., taldi að bjóða hefði átt verkefnið út samkvæmt lögum um opinber innkaup og vakti athygli Ríkisendurskoðunar á málinu.

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er sú að bjóða hefði átt þjónustuna út enda fjárhagslegt umfang hennar augljóslega yfir mörkum útboðsskyldu. Samkvæmt lögum um opinber innkaup ber að bjóða út kaup á þjónustu ef verðmæti hennar er 12,4 milljónir króna eða meira. Tilboð Sense ehf. hljóðaði upp á 19,8 milljónir króna.

Skrifstofa Alþingis telur að ekki hafi þurft að bjóða út þjónustuna þar sem Norðurlandaráð greiðir meirihluta kostnaðar við hana. Á móti bendir Ríkisendurskoðun á að bæði íslenska ríkið og Norðurlandaráð þurfa að hlíta sömu reglum um opinber innkaup, auk þess sem skrifstofa Alþingis er greiðandi reikninga vegna þjónustunnar.

Vegna þessa máls telur Ríkisendurskoðun að skrifstofa Alþingis þurfi að taka verklag við útboð og verðfyrir­spurnir til endurskoðunar.
Þess má geta að ábendingin er liður í stærra verkefni sem miðar að því að kanna hvernig ráðuneyti og stofnanir standa að kaupum á vörum og þjónustu. Á þessu ári hefur Ríkisendurskoðun gefið út samtals fjórar skýrslur og tvær sjálfstæðar ábendingar sem fjalla um þetta efni.

Sjá nánar