Einkaskólum ber að tryggja eigið rekstraröryggi

Skýrsla til Alþingis

31.08.2010

Margt er vel gert í starfi Keilis ehf. að mati Ríkisendurskoðunar en efla þarf gæðastarf skólans. Þá telur stofnunin óvíst hvort fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir rekstri hans. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að enn sem komið er sé erfitt að meta árangur af starfi Keilis ehf. eða hverju fjárveitingar til hans hafi skilað. Margt sé þó augljóslega vel gert í starfi skólans. Hann hafi m.a. mætt þörf fullorðins fólks sem lauk ekki fram­­halds­skóla­námi og hleypt lífi í vax­andi samfélag á flug­vall­arsvæðinu og mennta­mál Suður­nesja. Þá beri nemendur náminu góða sögu. Ríkisendurskoðun telur engu að síður að Keilir þurfi að efla enn frekar faglegt gæðastarf sitt.

Fram kemur að í árslok 2009 nam uppsafnaður halli af rekstri Keilis 136 m.kr. og skuldir 463 m.kr. Að mati Ríkisendurskoðunar er óvíst hvort fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir rekstri skólans. Bent er á að ríkisvaldinu sé ekki að lögum skylt að styðja einkaskóla á borð við Keili. Þeim beri sjálfum að tryggja eigið rekstraröryggi.

Á árunum 2007–10 fékk Keilir ehf. samtals 685,7 m.kr. úr ríkissjóði. Í skýrslunni kemur fram að um helmingur fjárins átti að renna til svokallaðrar frumgreinakennslu sem hefur að markmiði að búa nemendur undir háskólanám. Sérstakir samningar voru gerðir um þau framlög milli menntamálaráðueytisins (nú mennta- og menningarmálaráðuneyti), Háskóla Íslands og Keilis. Í skýrslunni er gagnrýnt að Keilir hafi nýtt hluta þeirra til annarrar starfsemi en frumgreinakennslu. Ríkisendurskoðun telur brýnt að fjárveitingar ríkisins til skólans renni til þeirra verkefna sem um hefur verið samið.
Ríkisendurskoðun telur að við núverandi aðstæður í ríkisfjármálunum þurfi stjórnvöld að setja skýra stefnu um fjárveitingar til skólastarfs. Eðlilegt sé að þær taki mið af faglegri greiningu á þörf samfélagsins fyrir mismunandi menntun. Ekki verði fallist á að ríkisstyrktir einkaskólar geti vaxið óhindrað og án samráðs við menntayfirvöld. Þá telur Ríkisendurskoðun að kanna þurfi hvort réttara sé að efla nýja skóla eða stuðla að sameiningu þeirra og eldri skóla. Enn fremur þurfi mennta- og menningarmálaráðuneytið að efla bæði fjárhagslegt og faglegt eftirlit með einkaskólum sem það hefur samið við.

Háskóli Íslands ber faglega ábyrgð á háskólanámi Keilis ehf. samkvæmt sérstökum samningi milli skólanna. Í nýjum verklagsreglum Háskóla Íslands kemur fram að honum er ekki heimilt að axla slíka ábyrgð á námi innan annarra skóla nema þeir hafi hlotið viðurkenningu sem háskólar. Þetta skapar nokkra óvissu um háskólanám Keilis þar sem hann er ekki viðurkenndur háskóli.

Samstarf Keilis við Háskóla Íslands kemur í veg fyrir að hann geti innheimt skólagjöld af nemendum í grunnnámi á háskólastigi. Því hefur skólinn farið þá leið að skilgreina grunnnám sem endurmenntun. Nýsamþykkt lög um opinbera háskóla girða fyrir þetta. Þar með getur Keilir ekki innheimt önnur gjöld í grunnnámi en skráningargjöld meðan á samstarfi hans við opinberan háskóla stendur.

Sjá nánar