Bæta þarf stjórnun og eftirlit með þjónustu við fatlaða

Skýrsla til Alþingis

27.08.2010

Samþykkja þarf heildarstefnu um þjónustu við fatlaða og tryggja samræmi hennar milli stofnana og landshluta. Þá þarf að efla allt eftirlit með starfseminni. Samkvæmt fjárlögum munu framlög til þjónustu við fatlaða nema samtals 11,2 ma.kr. á þessu ári. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á ýmsa veikleika í skipulagi og stjórnun málaflokksins. Þannig liggi t.a.m. ekki fyrir formlega samþykkt heildarstefna um hann og fjárveitingar taki ekki mið af reglulegu mati á þörf fyrir þjónustu. Einnig sé eftirliti með starfseminni ábótavant og því ekki tryggt að jafnræði ríki meðal þjónustuþega.

Svæðisskrifstofur sjá um að veita þjónustu við fatlaða í umboði félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Að auki hefur ráðuneytið samið við fimm sveitarfélög eða byggðasamlög um að veita þjónustuna gegn greiðslum úr ríkissjóði. Í skýrslunni kemur fram að ekki liggi fyrir með hvaða hætti þessir samningar hafi verið uppfylltir.

Áformað er að flytja málaflokkinn alfarið frá ríki til sveitarfélaga í byrjun næsta árs. Ráðuneytið mun þó eftir sem áður bera ábyrgð á yfirstjórn hans og hafa eftirlit með þjónustunni. Þrátt fyrir þessi áform liggur ekki fyrir mat á því hvaða ávinningi flutningurinn mun hugsanlega skila og telur Ríkisendurskoðun það ámælisvert.

Í skýrslunni er bent á ýmsar leiðir til að bæta stjórnun málaflokksins. Meðal annars þurfi að samþykkja formlega heildarstefnu þar sem fram komi skýr forgangsröðun, aðgerðaáætlun og mælikvarðar á árangur. Einnig þurfi að tryggja samræmi þjónustunnar milli stofnana og landshluta og að fjárveitingar til hennar taki mið af reglulegu mati á þjónustuþörf. Þá sé brýnt að bæta allt eftirlit með þjónustunni. Loks þurfi stjórnvöld að tryggja að unnt verði að meta mögulegan ávinning af flutningi málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga.

Ýmsar fleiri ábendingar er að finna í skýrslunni, m.a. um nauðsyn þess að hlutverk svæðisráða og trúnaðarmanna verði endurskoðað og að mat á þjónustuþörf einstaklinga verði samræmt.

Sjá nánar