Ákvarðanir sveitarstjórnar orsök fjárhagsvanda

Skýrsla til Alþingis

23.07.2010

Rekja má erfiða fjárhagsstöðu Álftaness til ákvarðana sveitarstjórnar á tímabilinu 2006–2009.Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu Álftaness kemur fram að skuldir og aðrar fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélagsins sjöfölduðust á tímabilinu 2006–2009. Þær námu samtals um 7,3 ma.kr í árslok 2009 en það samsvarar um 2,9 m.kr. á hvern íbúa. Tekjur sveitarfélagsins duga ekki til að standa undir rekstri og er það því komið í greiðsluþrot.

Að mati Ríkisendurskoðunar má að miklu leyti rekja þessa erfiðu stöðu til ákvarðana sveitarstjórnar á fyrrnefndu tímabili. Einkum ákvarðana um að semja við einkaaðila um að byggja sundlaug, íþróttahús og aðrar þjónustubyggingar og leigja síðan þessi mannvirki af þeim. Umræddir samningar eru ýmist til 30 eða 50 ára og óuppsegjanlegir. Skuldbindingar samkvæmt þeim nema samtals rúmlega 4 ma.kr. að núvirði.

Í skýrslunni kemur fram að endurskoðendur sveitarfélagsins hafi frá árinu 2006 ítrekað varað við því að tekjur dygðu ekki til að standa undir rekstri. Í stað þess að bregðast við með raunhæfum hætti hafi rekstur sveitarfélagsins verið þaninn út á hverju ári. Þessi útþensla hafi byggst á væntingum um að tekjur sveitarfélagsins myndu vaxa vegna sölu lóða og stöðugrar íbúafjölgunar. Að mati Ríkisendurskoðunar má draga í efa að þær væntingar hafi nokkru sinni verið raunhæfar, m.a. í ljósi þess hve mikið framboð var á lóðum annarsstaðar á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarstjórnin hafi tekið of mikla áhættu með ákvörðunum sínum.

Ríkisendurskoðun telur hins vegar að sveitarstjórn og embættismenn sveitarfélagsins hafi í meginatriðum staðið formlega rétt að umræddum ákvörðunum. Þá hafi málsmeðferð og upplýsingagjöf sveitarfélagsins til yfirvalda að mestu verið í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga.
Skuldbindingar vegna leigusamninga sem og lán sveitarfélagsins eru að stórum hluta bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Gengisfall íslensku krónunnar árið 2008 hefur því enn aukið á vandann.

Ríkisendurskoðun telur að herða þurfi fjármálareglur sem gilda um sveitarstjórnarstigið, t.d. reglur sem setja skorður við því með hvaða hætti sveitarfélög geta stofnað til skuldbindinga. Einnig þurfi að efla eftirlit með fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Brýnt sé að búa svo um hnúta að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga geti að eigin frumkvæði látið gera úttektir á sveitarfélögum en þurfi ekki að bíða eftir því að þau leiti sjálf eftir aðstoð nefndarinnar, eins og núgildandi reglur gera ráð fyrir.

Ríkisendurskoðun hefur einnig birt skýrslu um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla á Álftanesi. Fram kemur að kostnaður af rekstri grunnskóla er hlutfallslega meiri þar en í öðrum meðalstórum og stærri sveitarfélögum. Einkum megi rekja þetta til þess að fáir nemendur séu í hverjum bekk samanborið við aðra skóla af svipaðri stærð. Einnig þess að börn á grunnskólaaldri eru hærra hlutfall af íbúafjölda Álftaness en annarra sveitarfélaga.

Sjá nánar athugun á fjárhagsstöðu
Sjá nána athugun á framlögum Jöfnunarsjóðs