Dæmi um að stofnanir virði ekki lög um opinber innkaup

Skýrsla til Alþingis

25.02.2010

Misbrestur er á því að ríkisstofnanir fylgi ákvæðum laga um útboðsskyldu, verðsamanburð, gagnsæi og jafnræði í opinberum innkaupum. Í nýrri skýrslu bendir Ríkisendurskoðun á leiðir til úrbóta.Skýrslan fjallar um athugun Ríkisendurskoðunar á viðskiptum stofnana við úrtak 800 birgja. Fram kemur að misbrestur er á því að stofnanir fylgi ákvæðum laga um að bjóða út innkaup þegar fjárhæðir fara yfir tilteknin mörk og um að bera saman verð þegar fjárhæðir eru undir þeim. Að þessu leyti hafa stofnanir ekki gætt þess að leyfa öllum sem hafa til þess hæfni og getu að keppa um viðskiptin, líkt og lög kveða á um.

Athugunin náði til viðskipta að verðmæti 500 þús.kr. og þar yfir á tímabilinu janúar til október 2009. Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við viðskipti 45 stofnana og fjárlagaliða við 104 birgja, þ.e. 13% úrtaksins.

Til að stuðla að því að ríkisstofnanir virði ákvæði laga um verðsamanburð við innkaup leggur Ríkisendurskoðun til að fjármálaráðuneytið komi á fót miðlægum auglýsingavef til að auka jafnræði og gagnsæi. Einnig mælist stofnunin til þess að mótaður verði gátlisti um verðkannanir innkaupa þegar þau eru undir viðmiðunarfjárhæðum. Þá hvetur stofnunin Ríkiskaup til þess að fjölga tegundum rammasamninga en það eru samningar sem gerðir hafa verið við fjölmörg fyrirtæki og veita ríkisstofnunum sérkjör í viðskiptum við þau.

Skýrslan er þriðja áfangaskýrsla Ríkisendurskoðunar sem birtir niðurstöður úttektar hennar á innkaupamálum ríkisins. Áður eru komnar út skýrslur um innkaupastefnu ráðuneytanna og verktakagreiðslur til nokkurra fastra starfsmanna Háskóla Íslands.

Sjá nánar